138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með þessari efnisgrein er verið að auka veiðiskylduna og draga úr framsali og það er í sjálfu sér í samræmi við vilja mjög margra. Nú erum við sem sagt að greiða atkvæði um þann vilja ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að draga úr framsalinu og í raun og veru skerða möguleika á aðgangi nýrra aðila inn í sjávarútveginn en við höfum líka rétt í þessu lokið við að afgreiða 2. gr. þessa frumvarps þar sem yfirlýstur tilgangur var m.a. sá að auka leiguviðskipti með kvóta. Með öðrum orðum er í 2. gr. lagt upp með að reyna að auka leiguviðskiptin með kvóta og í 3. gr. er lagt upp með að draga úr leiguviðskiptum með kvóta. Það er eins og vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir hjá ríkisstjórninni.