138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það háttar svo til með þessa grein að hún er þannig saman sett að að sumu leyti má taka undir það sem þar er sagt, og þá er ég að vísa til fyrri hluta greinarinnar þar sem talað er um að á hverju fiskveiðiári sé heimilt að flytja af fiskiskipi 50% þess aflamarks sem skipi var úthlutað í þorskígildum o.s.frv.

Hins vegar er líka í þessari grein vondur skafanki sem felur það í sér að ef þessi efnisgrein er lesin nákvæmlega virðist allt benda til þess að hún geti leitt til þess að brugðið verði fæti fyrir eðlileg leiguviðskipti á milli útgerða. Þá er ég ekki að tala um leiguviðskipti á aflamarki heldur leiguviðskipti á skipum sem hefur tíðkast frá örófi alda. Það getur varla hafa verið ætlunin en af þessum ástæðum treysti ég mér ekki til að styðja þessa efnisgrein sem þó að öðru leyti er á margan hátt skynsamleg. Við greiðum því ekki atkvæði.