138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nokkurn veginn sömu dagana og Alþjóðahafrannsóknaráðið tekur út mjög stranga nýtingarstefnu sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur markað varðandi þorskstofninn og ríkisstjórnin hefur samþykkt, er verið að taka afstöðu til frumvarps sem sami hæstv. ráðherra flytur sem felur í sér leiðsögn um það að auka eigi veiði á skötusel um 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Þeir sem best vita í þessum efnum og þekkja best til markaðsmála telja að þetta geti rústað algerlega markaðsstarf okkar erlendis á þessum sviðum og geti m.a. haft það í för með sér að skötuselur sem veiddur er á Íslandsmiðum verði útlægur úr helstu verslunum sem selja íslenskan fisk á erlendri grundu.

Það er líka ljóst mál að þetta frumvarp eins og það er úr garði gert mætir ekki því sem því er ætlað, (Forseti hringir.) að koma til móts við þá sem hafa stundað beina veiði á skötusel án þess að hafa miklar aflaheimildir til þess. Þetta frumvarp er mótsögnin ein í einu og öllu.