138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:37]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Birtingarmynd efnahagshrunins verður okkur Íslendingum sífellt skýrari. Fyrst hrundu fjármálafyrirtækin og við það brustu allar rekstrarforsendur heimilanna, ríkisvaldsins og fyrirtækjanna, og nú við upphaf ársins 2010 eru vandamál sveitarfélaganna að koma betur og betur í ljós. Heildarskuldbindingar sveitarfélaganna í landinu jukust úr 300 milljörðum kr. í 487 milljarða kr. frá árinu 2007 til 2008. Hlutfall heildarskulda var á árinu 2008 komið í 228% af tekjum en var um 150% árið áður.

Sveitarfélagið Álftanes er öðrum þræði á dagskrá hér enda er þar á ferð ágætt sýnidæmi um stöðu mála heilt yfir. Sveitarfélagið er nú komið undir fjárhaldsstjórn en það má kannski segja að sveitarfélagið sé í svipaðri stöðu og margir íbúar þess. Þarna er barnafjöld, ráðist var í umfangsmiklar fjárfestingar á miklum þenslutímum og við hrun gjaldmiðils brustu allar tekju- og skuldaforsendur. Því er sveitarfélagið, rétt eins og íbúarnir að mörgu leyti, í verulegum fjárhagsvandræðum.

Á undanförnum árum hefur afkoma Álftaness versnað verulega og nú nema skuldir og skuldbindingar 7,4 milljörðum kr. Veltufé frá rekstri hefur verið neikvætt í nokkur ár sem þýðir að sveitarfélagið hefur ekki getað greitt af langtímaskuldum sínum með afkomu frá rekstri. Til að bregðast við slæmri stöðu hefur sveitarstjórnin nýlega kynnt hugmyndir um hækkun gjalda og skerðingu á þjónustu sem bætir afkomuna um 230 millj. kr. árið 2010 og 290 millj. kr. árið 2011. Það er engu að síður niðurstaða úttektar endurskoðenda að þrátt fyrir tillögur um hagræðingu í rekstri, skuldbreytingar lána og niðurfellingu á hluta skuldbindinga getur sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar.

En hvað þýða svona tölur fyrir íbúa Álftaness? Ef hugmyndir um sparnað og hækkanir ganga eftir verður, svo eitthvað sé nefnt, staða félagsmálastjóra lögð niður, stöður fræðslustjóra og leikskólafulltrúa lagðar niður, staða íþrótta- og tómstundafulltrúa lögð niður, útsvar hækkað um 10%, en það er nú þegar í hæstu stöðu, fasteignaskattar verða hækkaðir, heimgreiðslum til foreldra verður hætt, leikskólagjöld verða hækkuð um 15%, gjaldskrá frístundastarfs verður hækkuð um 10%, framlag til tónlistarskóla verður skorið niður um 40% og vinnuskóli unglinga lagður niður.

Sá sem hér stendur er talsmaður þess að ýtrasta hagræðis verði gætt við rekstur hins opinbera, og Álftnesingar þurfa að geta búist við því að þurfa að greiða fyrir sína þjónustu. En við getum líka gengið of langt. Hverjar yrðu afleiðingar þess ef of hart yrði gengið fram gagnvart Álftnesingum? Við mundum væntanlega horfa fram á flótta þeirra íbúa sem geta selt húsin sín eða búa í leiguhúsnæði. Færri íbúar, minni skatttekjur og eftir stendur, að ég óttast, annars flokks sveitarfélag sem getur ekki staðið undir lágmarksþjónustu.

Hagsmunasamtök íbúanna hafa nú risið upp en óskir þeirra eru að njóta sambærilegrar þjónustu og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Kannski erum við hér komin með skilgreint afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar og það úti á Álftanesi, enda ríkir nú mikið vantraust milli íbúa og kjörinna fulltrúa. Samtökin hafa óskað eftir aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu og hafa í því sambandi komið fram með hugmyndir um sparnað í rekstri.

Fjölmörg önnur sveitarfélög búa við erfiða skuldastöðu. Er því ekki ljóst að við köllum eftir miklu skýrari fjárhalds- og aðhaldsreglum fyrir sveitarfélög í landinu? Það er í raun ótækt að sveitarfélög geti komið sér í jafnvonda stöðu með jafnskelfilegum afleiðingum fyrir íbúa þeirra. Það má heldur ekki gleymast að önnur sveitarfélög hafa mikla hagsmuni af því hvað verður um Álftanes því að verði gengið til nauðasamninga mundi það hafa áhrif á lánshæfismat allra annarra sveitarfélaga í landinu.

Í þessari stöðu hljótum við líka að vilja skoða sameiningarmál á höfuðborgarsvæðinu af einhverri alvöru. Sex sjálfstæðar stefnur í skipulagsmálum kosta okkur mikla fjármuni og nú er krafist hagræðingar. Fram hefur t.d. komið að áætlaður ávinningur Álftnesinga af sameiningu sé um 100 millj. kr. en það er sú upphæð sem spara á í rekstrinum á þessu ári. Ég vildi beina eftirtöldum spurningum til ráðherra:

1. Munu íbúar Álftaness þurfa til langframa að búa við hærri álögur og minni þjónustu en aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu?

2. Óttast ráðherra ekki vítahring fólksflótta og minnkandi tekna?

3. Hver er skoðun ráðherrans á fjármálum sveitarfélaga heilt yfir?

4. Hver er stefna hans í sameiningarmálum?

5. Hver verða næstu skref ráðuneytisins gagnvart íbúum á Álftanesi?

Staða Álftaness í dag vekur upp margar áleitnar spurningar um rekstur sveitarfélaga í landinu, hvernig eigi að taka á skuldamálum þeirra og ekki síst hvort ekki sé kominn tími til róttækra skrefa í samvinnu- og sameiningarmálum. Um leið og við áttum okkur á mikilvægi þess að gæta hagræðis í rekstri, og ég held að Álftnesingar sjálfir viti það manna best, megum við ekki gleyma því að í öllum þessum húsum við allar þessar götur býr fólk sem tekið hefur á sig skattahækkanir, verðfall á húsnæðismarkaði, hækkun lána og minnkandi tekjur, allt vegna þess að efnahagsstefna stjórnvalda í þessu landi var kolröng í 18 ár. Það býr fólk við þessar götur og verði gengið of hart fram gagnvart þessu fólki munum við lenda í vítahring fólksflótta og minnkandi tekna og þá verður til annars flokks samfélag án allra innviða.