138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra fyrir ræðuna, svo langt sem hún nær. Frumvarpið og ræðan gátu lítið um þau úrræði sem ættu að vera til. Nú er komið eitt ár og þrjár vikur síðan ríkisstjórnin tók við og enn er ekki komin fullnægjandi lausn á vanda þeirra sem bíða uppboðs.

Hér er lagt til að fresta því að menn verði boðnir upp. Á sama tíma, fyrir u.þ.b. mánuði síðan, dembdi Íbúðalánasjóður út 1.000 beiðnum um nauðungarsölu, þ.e. ekki Íbúðalánasjóður heldur tölva Íbúðalánasjóðs. Í því tilfelli var ekki mikið verið að spá í að hvert einasta bréf var harmleikur fyrir viðkomandi fjölskyldu. Lítið hefur gerst. Hér er lagt til að fresta þessum úrræðum. Hvað þýðir það? Auðvitað getur maðurinn ekkert annað gert en að taka því. Þetta er í rauninni ekkert val, hann verður að taka því en á meðan tikka dráttarvextir. Skuldin hækkar, krafan versnar og staðan versnar. Í stað þess að taka á vandanum, sem hæstv. ríkisstjórn á að gera en hefur ekki gert af því að hún er að sinna einhverju allt öðru, þá erum við í þeirri stöðu í dag að vegna úrræðaleysis eru menn að lengja þennan frest. Íbúðamarkaðurinn er frosinn og það gerist ekki neitt. Ég legg til að hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra taki sér tak, sem og öll ríkisstjórnin, og komi með almennilegar reglur til að leysa vanda heimilanna í landinu, fyrir utan að það þarf líka að leysa vanda fyrirtækjanna.