138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[16:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 25. júní 2009. Í sáttmálanum kemur meðal annars fram að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld skuli taka upp virkt samstarf á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini í samræmi við bókun Alþýðusambands Íslands og Samtök atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008. Markmiðið með slíku samstarfi yrði m.a. að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna réttinda auk þess að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Þá kemur fram í sáttmálanum að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum um almennt eftirlit á vinnustöðum og um vinnustaðaskírteini. Í tilvitnaðri bókun Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins kemur meðal annars fram að Alþýðusambandið og SA muni vinna áfram að innleiðingu og notkun vinnustaðaskilríkja þar sem það á við og beina einkum sjónum sínum að byggingariðnaði.

Þetta mál sem hér um ræðir á rætur að rekja til þeirrar forsögu þegar við vorum að glíma við erfið mál vegna starfsmannaleigna og erfitt var að hafa eftirlit með því að grundvallarreglur kjarasamninga væru tryggðar. Á sama hátt er ekki síður mikilvægt í dag að fylgst sé með því að þeir sem finnast fyrir á vinnustöðum séu í reynd starfsmenn fyrirtækja, að borguð séu gjöld vegna þeirra og ekki að sé um að ræða svik úr atvinnuleysistryggingakerfinu.

Í samræmi við efni stöðugleikasáttmálans og framangreindrar bókunar er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp vinnustaðaskírteini á innlendum vinnumarkaði innan þeirra atvinnugreina sem samtök aðila vinnumarkaðarins semja um á hverjum tíma. Auk byggingariðnaðarins má gera ráð fyrir að samið verði um að ákvæði frumvarpsins eigi við um rekstur gististaða og veitingarekstur. Þannig verði styrkari stoðum rennt undir eftirlit fulltrúa samtaka aðila vinnumarkaðarins á vinnustöðum enda er markmið frumvarpsins að stuðla að því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

Í frumvarpinu er miðað er við að kjarasamningar þeir sem samtök aðila vinnumarkaðarins gera á grundvelli frumvarps þessa hafi sama almenna gildi og kjarasamningar almennt hafa samkvæmt 1. og 2. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Byggist það á þeirri viðteknu venju að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í kjarasamningsviðræðum sín á milli. Hafa þeir samningar gilt sem lágmarkskjör hér á landi fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgreinum á svæðum þeim sem samningarnir taka til, samanber 1. gr. fyrrnefndra laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Þannig hafa atvinnurekendur þurft að taka mið af kjarasamningum aðilanna við ákvörðun launa og annarra starfskjara þeirra sem kjósa að standa utan félaga en í fyrrnefndum lögum er sérstaklega tekið fram að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skuli ógildir. Með hliðsjón af þessari meginreglu á íslenskum vinnumarkaði hefur enn fremur verið litið svo á að eftirlit með að kjarasamningar skuli haldnir sé einnig á ábyrgð aðilanna sjálfra. Það er í sjálfu sér álitamál hvernig taka skal á þörf fyrir aukið eftirlit á vinnustöðum að þessu leyti og auðvitað hefur oft komið til tals hvort það eftirlit ætti að vera af hálfu opinberra aðila. Niðurstaðan er hins vegar sú að byggt verði á þeirri arfleifð og þeirri sögu að eftirlit með kjarasamningum skuli almennt vera á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins sjálfra og út af þeirri hefð hefur ekki tíðkast að opinberir aðilar hafi viðhaft sérstakt eftirlit með því að atvinnurekendur haldi gerða kjarasamninga eða hvort efni þeirra brjóti hugsanlega í bága við innlenda löggjöf. Í samræmi við þetta er því gengið út frá því að aðilar vinnumarkaðarins semji um það í frjálsum samningaviðræðum hvernig eftirliti með launum og öðrum starfskjörum launafólks skuli háttað, telji þeir sérstaka þörf á því. Frumvarp þetta felur því í sér ákveðinn ramma sem ætlað er að gildi um gerð vinnustaðaskírteina og fyrrnefnt eftirlit aðila vinnumarkaðarins sem slíkt. Jafnframt felur frumvarpið í sér ríkar heimildir til handa samtökum aðila vinnumarkaðarins til að semja nánar um inntak eftirlitsins, þar á meðal til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lögunum er ætlað að taka til hverju sinni.

Í frumvarpinu er lagt til að atvinnurekandi skuli sjá til þess að hann sjálfur sem og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini og er við það miðað að starfsmennirnir fái slík skírteini um leið og þeir hefja störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda hvort sem þeir eru ráðnir beint á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu. Jafnframt er mælt fyrir um að atvinnurekandi sjálfur sem og starfsmenn hans skuli bera vinnustaðaskírteinin á sér við störf á vegum atvinnurekanda. Þykir þetta mikilvægt svo unnt verði að koma á skilvirku eftirliti á vinnustöðum, meðal annars í því skyni að ganga með tiltölulega einföldum hætti úr skugga um hvort atvinnurekandi og starfsmenn hans fari að þeim lögum og kjarasamningum sem þeim ber. Enn fremur er tekið fram hvaða upplýsingar gert er ráð fyrir að komi fram í vinnustaðaskírteinunum.

Í samræmi við markmið frumvarpsins er lagt til að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins verði veittur aðgangur að vinnustöðum atvinnurekanda í sérstökum eftirlitsheimsóknum en gert er ráð fyrir að eftirlitsfulltrúarnir sendi til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, hlutaðeigandi lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og þjóðskrár þær upplýsingar sem fram koma á vinnustaðaskírteini sem þeir kanna í eftirlitsheimsóknum sínum. Er þetta lagt til þannig að hver stofnun um sig geti nýtt upplýsingarnar og í kjölfarið metið hvort ástæða sé til að kanna mál frekar á grundvelli þeirra heimilda sem hver stofnun um sig hefur samkvæmt hlutaðeigandi lögum, hafi stofnunin rökstuddan grun um að lög þau sem stofnunin annast framkvæmd á hafi verið brotin.

Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að verði eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins neitað um aðgengi að vinnustöðum atvinnurekanda í tengslum við eftirlitið eða atvinnurekandi eða starfsmenn hans beri ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda geti eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að stofnunin geti í kjölfar slíkra upplýsinga krafist þess skriflega með sannanlegum hætti að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum sem gert er ráð fyrir að renni í ríkissjóð. Þá er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að kæra til félags- og tryggingamálaráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar um dagsektir innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.

Virðulegi forseti. Eins og fram hafur komið er markmið frumvarpsins að stuðla að því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum og reglugerðum og kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.

Aldrei áður hefur frumvarp þessa efnis verið lagt fram á Alþingi og er því hér um mikið og tímabært skref að ræða, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum missirum.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.