138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna öllum góðum vilja sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn um að grípa þurfi til aðgerða. Margir þingmenn í stjórnarliðinu hafa lýst því yfir að úrræðin séu ekki nægjanleg og að taka þurfi skref. En ég spyr: Er ekki kominn tími á að menn grípi til aðgerða, að við framkvæmum, látum verkin tala?

Hæstv. heilbrigðisráðherra vildi meina að því miður væri of lítið gert og að þau úrræði sem stæðu til boða hefðu gagnast fáum. Ég vil meina að þau úrræði sem standa til boða gagnist í rauninni engum nema þá kannski helst einhverjum sem hafa staðið í útrásinni, einhverjum sem stóðu í dýrum fyrirtækjarekstri og voru kannski þátttakendur í því hruni sem hér átti sér stað. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) vegna þess að ég veit að hún mun láta til sín taka ef hún svo vill og beita sér innan ríkisstjórnarinnar þannig að farið verði að tillögum okkar framsóknarmanna og komið (Forseti hringir.) til móts við heimili í fjárhagsvanda.