138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

undirbúningur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:55]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið starfar að sjálfsögðu að framkvæmd þeirra laga sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun janúar. Samkvæmt minni vitneskju er búið að fullvinna kjörskrá og það er hægt að fara inn á vefinn kosning.is, slá inn kennitölu og athuga hvar maður er á kjörskrá.

Hvað varðar prentun kjörseðla, já, það er búið að prenta kjörseðla og samkvæmt upplýsingum mínum er þessa stundina verið að pakka þeim til dreifingar þannig að það á að vera á áætlun.

Hvað varðar birtingu auglýsingar um spurninguna, þ.e. að lagaákvæði mæli fyrir um að það eigi að birta auglýsingu um spurninguna í fjölmiðlum, verður það gert núna á laugardag. Það verður gert í dagblöðum og Ríkisútvarpi, minnir mig að lagaákvæðið hafi mælt fyrir um, en við vorum líka að huga að birtingu í vefmiðlum eins og umræður voru um á Alþingi að væri nauðsynlegt að gera líka.

Hvað varðaði hlutlausa kynningarefnið hefur vefurinn með hinu hlutlausa efni þegar verið opnaður og búið að gefa út að bæklingur eigi að koma inn á hvert heimili. Það sem kemur fram í bæklingnum er í rauninni ekkert annað en það sem kemur fram á vefnum en bæklingurinn er núna í prentun og við vonumst til þess að geta dreift honum skammlaust í tíma fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.