138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni Rúv.

[11:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér Ríkisútvarpið og þær aðgerðir sem stjórn Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóri hafa ákveðið að ráðast í vegna niðurskurðar í opinberum rekstri almennt þó að Ríkisútvarpið sé opinbert einkahlutafélag. Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun, það hefur stjórn sem Alþingi kýs og það hefur útvarpsstjóra. Það eru þessir aðilar sem bera faglega og rekstrarlega ábyrgð á þessari stofnun. Við þingmenn getum haft skoðanir á því hvað þar fer fram, við getum haft skoðanir á fréttaflutningi. Við getum haft skoðanir á öllu útvarpinu eins og það leggur sig en það eru þessir aðilar sem bera faglega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni, við skulum ekki gleyma því.

Íhlutun stjórnmálamanna almennt í rekstur fyrirtækja er óásættanlegur af minni hálfu. Hins vegar hefur menntamálaráðherra valdið í sínum höndum vegna þess að ráðherrann sjálfur gerir þjónustusamning við stjórn Ríkisútvarpsins um hvað þar skuli fram fara. Þar getur ráðherrann sett fram þær kröfur sem hann óskar fyrir hönd þjóðarinnar að settar verði fram í þessum þjónustusamningi. Það er tækið sem ráðherrann hefur til þess að vinna með stjórn og útvarpsstjóra, þar liggur hin pólitíska leið og hana eigum við að fara.

Við stjórnmálamenn getum haft skoðanir á því hvernig hlutirnir eru og eiga ekki að vera en íhlutun stjórnmálamanna almennt í rekstur fyrirtækja er algerlega óásættanleg.