138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að núna, rúmlega 16 mánuðum eftir hrun, talaði hann um að það væri mjög mikilvægt að vinnan væri hafin. Það er auðvitað mjög mikilvægt, en það hefði kannski verið ágætt að hún hefði hafist dálítið fyrr og það væri orðinn meiri árangur af vinnunni.

Hér koma upp jafnt stjórnarþingmenn sem þingmenn stjórnarandstöðu og tala mikið um réttlæti og jöfnuð og að grundvöllur þessa tveggja sé gegnsæi í öllum aðgerðum. Þá getur maður spurt sig: Við gjaldþrot fyrirtækja eða fjárhagslega endurskipulagningu, kannski ekki síst þegar þau fara alla leið í gjaldþrot, gilda sömu lög til að mynda og í Ameríku? Þar virðast menn fara fyrir sérstaka dómstóla og að það sé mjög gegnsætt ferli. Það þarf að uppfylla mörg skilyrði og allir geta boðið í fyrirtækið. Jafnvel þótt áður hafi verið boðið í það er það samt boðið upp á opnum markaði. Gildir það líka á Íslandi að skiptastjórar þurfi að fara í opinskátt og opið ferli og auglýsa allar eignir sem þar eru eða geta þeir úthlutað þeim til hinna og þessara án þess að nokkur sjái? Er slíkt ferli til?

Frú forseti. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Hún er við völd. Hvað hefur ríkisstjórnin aðhafst í þessu máli? Hvað vill hæstv. ráðherra gera? Það þýðir ekki að segja að þetta sé í höndum bankanna og þegar síðan er spurt um þetta sé vísað til bankaleyndar. Það er ekki gegnsæi. Ef menn segja A hljóta að fylgja allir bókstafir stafrófsins á eftir. Menn verða að enda með einhverja skýra stefnu sem inniheldur réttlæti, jafnrétti, jafnræði og gegnsæi í þessum málaflokki og, það sem mikilvægast er, að atvinnufyrirtækin komist á legg sem fyrst til að hér verði atvinna fyrir alla í þessu landi sem fyrst. (Gripið fram í.)