138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:25]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Til umræðu er sú tillaga til þingsályktunar að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Ég fagna þessari ályktun sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir á frumkvæði að og er nú hér til umfjöllunar en það er jafnframt fagnaðarefni að fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi séu meðflutningsmenn á þessari tillögu. Tillagan felur í sér framtíðarsýn fyrir íslenskt þjóðfélag þar sem lagt er upp með aukið gagnsæi starfa hins opinbera, aukið aðgengi almennings að upplýsingum og styrkingu fjölmiðla og tjáningarfrelsis. Við stöndum á tímamótum sem þjóð eftir hrun fjármálakerfisins. Áhrifa hrunsins gætir víða í samfélaginu og endurreisnarstarfið mun taka okkur talsverðan tíma. Ég tel mikilvægt í því samhengi að endurskoða í hvernig samfélagi við viljum búa og hverjar áherslur okkar eiga að vera. Kerfið sem við búum við er skapað af Alþingi og það er okkar að gera lagfæringar á því sem okkur finnst vera ábótavant eða úr sér gengið. Ég tel að nú sé réttur tímapunktur til að endurskoða þá þætti sem okkur finnst að betur mættu fara í okkar þjóðfélagi.

Núverandi ástand kallar á endurmat á flestum sviðum samfélagsins og nú er svigrúm fyrir hugarfarsbreytingu. Nú er unnið að rannsókn á hruni fjármálakerfisins sem er mikilvægur þáttur í endurreisnarstarfinu og einn liður í því að gera upp fortíðina. Á sama tíma má samt ekki gleyma mikilvægi þess að leysa þau vandamál sem við okkur blasa í dag hratt og vel þannig að við getum komist saman út úr þessum erfiðu aðstæðum en það verður einungis gert með frekari úrræðum fyrir heimilin og eflingu atvinnulífsins. Í mínum huga eru þetta tvö mikilvægustu málin sem við eigum að vera að fást við í dag.

Mér hefur hins vegar fundist skorta á umræðu um framtíðina, þ.e. í hvernig þjóðfélagi viljum við búa og hver er framtíðarsýn okkar fyrir íslenska þjóð. Það er mjög brýnt að rætt verði um þessi mál á Alþingi. Við verðum að horfast í augu við það að sístækkandi hópur sér ekki fyrir sér framtíðina á Íslandi. Aldrei hafa fleiri einstaklingar flutt af landi brott en á síðasta ári. Unga fólkið er að missa trúna á Íslandi sem framtíðarbúsetustað, enda ekkert skrýtið þar sem atvinnutækifærum fer sífækkandi, laun lækka, kaupmáttur rýrnar og skattar hækka. Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem við viljum búa við eða bjóða íslenskri þjóð upp á, svo ekki sé minnst á trúverðugleika okkar þingmanna sem fer þverrandi.

Við verðum að sýna fram á að við getum unnið saman að heill íslenskrar þjóðar og bjartri framtíð og ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé einn liður í því þar sem þingmenn allra flokka á Alþingi taka höndum saman. Þannig mætti það vera í fleiri málum á Alþingi.

Við sjálfstæðismenn erum með á ályktuninni en setjum þó fram nokkra fyrirvara við það sem sett er fram í greinargerðinni og ég mun stikla á þeim á eftir. Þar vil ég í tengslum við þetta minnast á að ábyrgð fjölmiðla er gríðarlega mikil og hún er lykilþátturinn í því fjölmiðlafrelsi sem við höfum á Íslandi og til þess að það geti ríkt. Við treystum fjölmiðlum til að fara með þessa ábyrgð.

Ég ætla að fara stuttlega yfir hvern lið fyrir sig í greinargerðinni. Í henni er talað um heimildavernd. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að skoðað verði sérstaklega að styrkja vernd heimildarmanna fjölmiðla umfram það sem nú er gert í lögum þannig að dómarar geti ekki þvingað menn til að gefa upp heimildarmenn sína. Það er vel, enda styttist í að lög um fjölmiðla verði tekin upp að nýju og þar gefst tækifæri til að fjalla um þetta mál sérstaklega.

Hvað varðar vernd uppljóstrara er gríðarlega mikilvægt að ekki verði ýtt undir lögbrot með neinum hætti eða einstaklingar hvattir til þess. Hins vegar þarf að skoða vernd uppljóstrara sérstaklega. Ég sé aftur á móti enga ástæðu til að veita órjúfanlegan rétt til að afhenda þingmönnum upplýsingarnar. Hins vegar þarf að skoða hugsanlegar leiðir opinberra starfsmanna til að upplýsa um mál sem þeir verða varir við í störfum sínum er ganga gegn lögum og almannahagsmunum. Við megum samt ekki gleyma því að opinberir starfsmenn eru stundum að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar um venjulegt fólk úti í bæ. Uppljóstraravernd má aldrei verða skálkaskjól fyrir opinbera starfsmenn til að upplýsa að óþörfu um viðkvæm mál er varða friðhelgi einkalífs almennra borgara.

Ef fara á þessa leið er mikilvægt að ferli slíkra mála innan stjórnsýslunnar sé skýrt og að úrskurðarvald liggi fyrir um hvaða mál verði rannsökuð frekar eða skoðuð sérstaklega. Þar sæi ég fyrir mér að umboðsmaður Alþingis eða Ríkisendurskoðun mundi meta slík mál. Það er gríðarlega mikilvægt í mínum huga að vandað verði mjög til verka um útfærslu á þessu. Ef við ætlum að opna á það að opinberir starfsmenn geti tjáð sig um það sem þeir telja fara gegn almannaheill má það ekki vera matsatriði eins manns heldur verður það að fara eftir sérstöku ferli. Þar tel ég ekki henta vel að þeir geti leitað með þessar upplýsingar til þingmanna af því að þingmenn geta oft og tíðum haft pólitíska hagsmuni af því að hlutum sé lekið úr stjórnsýslunni. Eins og ég nefndi tel ég t.d. að umboðsmaður Alþingis eða Ríkisendurskoðun gæti verið sá aðili sem úrskurðaði um hvaða mál mætti fara áfram með. Ég tel að ekki megi heldur fara í hina áttina, þ.e. að opinberir starfsmenn geti afhent hverjum sem er þessar upplýsingar. Það þarf alltaf að fara fram mat á áhrifum á friðhelgi einkalífsins, mat á áhrifum á þriðja aðila o.s.frv. og þá væri ekki gott ef menn gætu farið með þessar upplýsingar beint í fjölmiðla. En það er mjög brýnt að þetta verði skoðað og mönnum gefið tækifæri til að koma slíkum upplýsingum fram. Eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir erum við að reyna að bæta og koma í veg fyrir spillingu. Það á náttúrlega að vera markmiðið.

Hvað samskiptavernd varðar er þörf á að skilgreint sé nánar í hvaða undantekningartilfellum ábyrgð milligönguaðila í fjarskiptum eigi við og að skoðuð verði sérstaklega áhrif þriðja aðila sem oft og tíðum er sá sem hýsir samskiptin, eins og kemur fram í greinargerðinni.

Færum okkur þá yfir í tjáningarfrelsið. Þegar rætt er um að bæta tjáningarfrelsi verður ávallt að hafa í huga friðhelgi einkalífsins. Tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins tengjast órjúfanlegum böndum og vægið þar á milli verður ávallt að vera jafnt. Tjáningarfrelsi má aldrei verða það rúmt að það heimili óþarfar uppljóstranir á viðkvæmum persónuupplýsingum um almenna borgara, og friðhelgi einkalífs má ekki vera túlkuð það rúmt að hún gefi mönnum skálkaskjól til að leyna brotum gegn lögum og almannahagsmunum. Í þessu samhengi vil ég nefna að frelsi fylgir ábyrgð, og þá ábyrgð verður ávallt að hafa í huga í umræðunni um þetta mál. Það er hins vegar afar mikilvægt mál að tjáningarfrelsið sé ávallt virt.

Ég tek undir það sem kemur fram í ályktuninni um aðgengi að dómstólum og að réttlát málsmeðferð sé mikilvægur þáttur lýðræðis. Ég tel að við búum vel hvað það varðar á Íslandi. Ég tel hins vegar ekki hægt að bera saman kostnað við að sækja mál á Íslandi og það dæmi sem nefnt er í greinargerðinni með ályktuninni. Staðan er því að þessu leyti mun betri á Íslandi en víða annars staðar. Ég tel hins vegar sjálfsagt mál að skoða löggjöf annarra landa hvað þetta varðar.

Í kaflanum um vernd gagnagrunna og -safna kemur fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað það sem svo að útgefið efni á netinu skuli teljast útgefið í hvert sinn sem lesandi skoðar það. Jafnframt taldi dómstóllinn að meiðyrðamál sem eru höfðuð talsvert löngu eftir birtingu gætu heft tjáningarfrelsi fjölmiðla nema undir mjög ákveðnum kringumstæðum. Það er hægt að taka undir það að í einhverjum tilfellum kunni það að hefta tjáningarfrelsi en til að koma til móts við það sjónarmið er í ályktuninni gert ráð fyrir að stefnur á hendur útgefendum verka þurfi að vera birtar innan tveggja mánaða frá upphaflegri útgáfu verks. Í þessu samhengi megum við ekki gleyma rétti þeirra einstaklinga sem fjölmiðlar fjalla um og rétti þeirra einstaklinga til að verjast meiðyrðum. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að lög og reglur um meiðyrði voru að meginstefnu sett til að vernda almenna borgara fyrir óþarfauppljóstrunum um einkahagi, uppljóstrunum sem eiga ekkert erindi við almenning, ekki til að vernda brotamenn fyrir umfjöllun um háttsemi þeirra. Ég tel að sá tími sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni sé helst til naumur, að rétt sé að gæta meðalhófs og að sanngjarnara væri að miða við eitt ár eins og víða er gert annars staðar.

Mér sýnist ég ekki ná að klára þetta þannig að ég ætla að láta (Forseti hringir.) staðar numið.