138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

342. mál
[18:14]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Hér er á ferðinni mjög brýnt mál og í raun og veru með ólíkindum að stjórnarandstöðuþingmenn þurfi að flytja mál sem þetta þegar fyrir liggur að Verðlagsnefnd búvara óskaði eftir því árið 2006 að þessu yrði breytt. Það sem mér finnst mikilvægt í þessu er að það verður gegnsærri verðlagning á mjólkurafurðum og að sá reiknaði stuðningur við íslenskan landbúnað sem hefur í samanburði á milli ríkja alltaf verið sýndur sem ríkisstuðningur mun lækka um 400 milljónir og það er nú reyndar með ólíkindum að þær 400 milljónir, sem hafa komið inn í ríkissjóð með þessu verðmiðlunargjaldi og runnið þaðan út aftur til sömu aðila, hafi verið túlkaðar sem ríkisstuðningur. Það er lítið við því gera, en þetta er mjög mikilvægt.

Ég held að rétt sé að minnast aðeins á það líka að í þessum búvörulögum er tekið á ýmsu er varðar landbúnaðinn og allar þær búvörur sem undir hann heyra. Í nýlegu áliti Samkeppnisstofnunar kemur fram hvatning til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að beita sér fyrir því að 71. gr. laganna verði felld brott. Það mál varðar sameiningu mjólkurafurðastöðva. Þar sem verið er að ræða breytingar við þessi lög vil ég gera það að umtalsefni að mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra standi í lappirnar í því máli því að þessi grein er mjög mikilvæg, ekki síst í ljósi þess að svo virðist sem núverandi ríkisstjórn sé meira en alvara með að halda áfram þessu aðildarferli að Evrópusambandinu. Ljóst er að landbúnaðurinn mun verða erfiður málaflokkur í þeim viðræðum og samkvæmt þeim heimildum sem til eru hjá Bændasamtökunum og hafa verið teknar saman þar um áhrif þessarar aðildar á íslenskan landbúnað bendir margt til þess að það verði hrun í afurðaverði. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur þegar markaðurinn hefur opnast að menn eigi þess kost að sameina afurðastöðvar. Þess vegna hefði ég viljað að menn hugsuðu frekar til þess með 71. gr. þessara laga að menn hefðu möguleika á að fara í frekari sameiningar og þá er ég að tala um afurðastöðvar í kjöti, sem eru sjö hér á landi, og væri mikill styrkur fyrir okkur að sameina eignarhald á þeim til að mæta þeirri auknu samkeppni sem verður ef svo ólíklega vill til að við göngum inn í Evrópusambandið.

Mér finnst þetta hið besta mál hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni og styð það og þakka fyrir það og vil hvetja hv. þm. og formann hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atla Gíslason, til að taka vel í þetta mál og vinna það af hraða og myndugleik.