138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Pétur Blöndal var í þingsalnum þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór í gegnum (PHB: Jú, jú.) það hvernig hægt væri að skilgreina lýðræði á margvíslegan hátt en ég ætla svo sem ekki að endurtaka það.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í andsvar við hv. þingmann var túlkun hans á eignarréttarákvæðinu, að með því að setja þessar reglur værum við að ganga á eignarrétt eigendanna. Þá verð ég bara að spyrja: Samkvæmt skilgreiningu hv. þingmanns göngum við þá ekki á eignarrétt eigenda þegar við setjum almennt einhver lög um rekstur fyrirtækja, hvort sem það eru lög um fjármálafyrirtæki, heilbrigðiseftirlit eða það hversu marga vaska má hafa í eldhúsi á veitingastað? Megum við almennt setja nokkur lög sem takmarka frelsi eigendanna til að gera nákvæmlega það sem þeir vilja? Ég vona svo sannarlega að þingmaðurinn geti svarað þessari spurningu vegna þess að mér hefur fundist Viðskiptaráð Íslands, en töluvert hefur verið vísað í umsögn þeirra, túlka eignarréttarákvæðið á mjög takmarkaðan máta.

Fyrirgefðu, frú forseti, þar sem ég er í andsvari en ekki ræðu þá er klukkan aðeins vitlaus. Það væri áhugavert að fá að heyra skýringu frá þingmanninum og nákvæma skilgreiningu á því hvenær við göngum á eignarrétt og hvenær ekki. Ég get ekki séð að við takmörkum á nokkurn hátt eignarrétt þegar við setjum skilyrði um það hvernig eigendur reka fyrirtæki sín vegna þess að við teljum að það sé til hagsbóta bæði fyrir fyrirtækin og samfélagið í heild.