138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir ræðuna en ég held að hann þurfi að halda þessar ræður einhvers staðar með sínu samstarfsfólki. Ég vek athygli á orðum hv. þm. Skúla Helgasonar sem sagði: Það er allt á fullu í atvinnumálum. Þingmaður á Alþingi Íslendinga sagði þetta. Þetta hlýtur að vera einhvers konar heimsmet í firringu. Það sem ríkisstjórnin er búin að gera er að hækka skatta á atvinnulífið, hún hefur dregið lappirnar í öllu því sem snýr að orkuöflun. Á því svæði þar sem er nærri 20% atvinnuleysi, virðulegi forseti, bregður hún sömuleiðis fæti fyrir aðra nýsköpun og starfsemi sem gæti skilað útflutningsverðmætum. Og þetta er skilgreining hv. þingmanns á að það sé allt á fullu í atvinnumálum.

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið í takt við það sem forustumenn ríkisstjórnarinnar tala um. Nú reyna þeir að halda því fram, ýta undir það og búa til spuna sem miðar að því að fólk taki ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég vara við þessu og hvet fólk til að taka þátt. Það er t.d. hægt að greiða utankjörfundaratkvæði á höfuðborgarsvæðinu til kl. 10 í Laugardalshöll og að sjálfsögðu er hægt að greiða atkvæði á laugardaginn. Ríkisstjórnin sagði okkur að klára samninginn í júní, hann væri svo góður, við þyrftum ekki einu sinni að sjá hann. Þau sögðu að fyrirvararnir sem samþykktir voru í ágúst væru innan ramma samningsins og sögðu okkur í október að sá samningur sem þá var kominn væri jafnvel betri en sá með fyrirvörunum. Ekkert (Forseti hringir.) af þessu er rétt og það er heldur ekki rétt að við eigum ekki að taka þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu því að við eigum að gera það. Og við eigum að segja nei, virðulegi forseti.