138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:25]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Það er ljóst að 30 þúsund manna hópur þarf ansi fjölbreytt námsframboð. Það er ekki líklegt að öllum þessum skara henti sama form þannig að það er ljóst að framhaldsskólakerfið hlýtur að þurfa að bjóða upp á fjölbreytni í framboði sínu. Mér finnst rétt að halda því til haga að það er eðlilegt fyrir ungmenni að vera í framhaldsskóla með jafnöldrum sínum, það er eðlilegt ástand.

Ég hef miklar áhyggjur af ákveðnum hópi nemenda sem við höfum stundum talað um að sé á gráa svæðinu. Það eru krakkar sem ekki eru með fötlun en þurfa ákveðið aðhald, umhyggju og hvatningu. Ég held að með því að sinna þeim hópi, þessu grásvæðisfólki, gætum við minnkað brottfall til muna. Við verðum ekki síst að hyggja að þessum hópi núna því að áður gat hann farið í einhverja uppbyggilega iðju með því að fara út á atvinnumarkaðinn en nú höfum við ekki það úrræði. (Forseti hringir.) Ég legg því áherslu á að við hugsum um þessa grásvæðiseinstaklinga.