138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:44]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þakkir til hv. þm. Árna Johnsens fyrir að hefja máls á þessu máli. Ég vil líka halda því til haga að við sjúkrahúsið og heilsugæsluna á Suðurnesjum er unnið mjög gott starf þrátt fyrir erfiðar aðstæður og um margt óvissu. Eitt fyrsta málið sem ég fékk í fangið sem nýkjörinn þingmaður Suðurkjördæmis árið 2007 voru vandamálin þarna suður frá. Það er rétt hjá hv. þm. Árna Johnsen að þau hafa verið viðvarandi í mörg ár, reyndar víðar, það var sama vandamál á Suðurlandi en þar var gripið til þess að klára viðbyggingu sem hafði staðið lengi í framkvæmdaleysi.

Mér var stundum nær að halda að fjársvelti heilsugæslunnar á Suðurnesjum væri til að knýja heilsugæsluna til einkavæðingar. Mér var nær að halda það. Það er mikill uppsafnaður skuldavandi, ég held að hann sé núna um 105 millj. kr. Það var gerð leiðrétting á árinu 2009 vegna íbúafjölgunar sem reyndar náði yfir allt landið og það var sett inn 60 millj. kr. leiðrétting. Það var hins vegar ekki leiðrétt aftur á bak til góðærisáranna 2004–2008, því miður, og sá vandi er enn óleystur. Hann er hjá fjármálaráðuneytinu og ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að beita sér fyrir því að þessi skuld verði strikuð út.

Síðan halda menn því fram að ekki sé rétt gefið varðandi hinn tímabundna vanda. Þar hafa verið nefnd atriði sem ég tel íhugunarverð, sérstaklega varðandi Ásbrú, í þessu 1.500 manna samfélagi búa um 500 manns sem ekki eru skráð með lögheimili og þar af margar barnafjölskyldur. Rúm virðast ekki rétt reiknuð, þ.e. fjöldinn, og legurúm ranglega flokkuð samkvæmt reiknigrundvelli, auk þess sem kostnaður vegna flugslysaáætlunar virðist vanreiknaður. Þennan tímabundna vanda verður að skoða og ég veit að það er til skoðunar í ráðuneytinu að leysa þann vanda. Svo kemur til hinn stóri vandi læknaskorturinn eins og hér hefur verið lýst og síðan vandinn sem snýr að því að það varð sparnaður á miðju ári 2009 sem ekki var (Forseti hringir.) hægt að bregðast við tímanlega. Vítahringurinn og hinn langvarandi vandi liggur í læknaskorti og þann vítahring verður með einhverjum hætti að rjúfa og taka líka upp tilvísanakerfi til skoðunar.