138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tillögur starfshóps um kynbundinn launamun.

[16:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska þingheimi til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna sem er 100 ára í dag. Ein grófasta birtingarmynd kynjamisréttis er kynbundinn launamunur. Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2007 var lögð rík áhersla á að vinna gegn kynbundnum launamun. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði starfshóp um kynbundinn launamun og hann skilaði skýrslu í desember 2008 með ábendingum um leiðir til að vinna að launajafnrétti kynjanna á almennum markaði. Um svipað leyti skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, starfshóp sem átti að vinna að verkefnum tengdum opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni þess hóps var að setja fram áætlun um að minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði, með það að markmiði að hann minnkaði um helming á kjörtímabilinu, og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér starfaði þessi hópur vorið 2008 og fram á árið 2009. Síðasti fundur nefndarinnar var haldinn í janúar það ár en svo var hópurinn lagður niður. Fram kemur að hópurinn hafi skilað skýrslu til hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, en sú skýrsla hefur ekki verið birt.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaða tillögur hafi komið fram í þessari skýrslu og hvers vegna hún hafi ekki verið birt.