138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við spyrjum hér: Hver er staða atvinnulífsins nú þegar nálgast eitt og hálft ár frá hruni, þegar meira en eitt ár er frá því að Vinstri grænir og Samfylking tóku við stjórnartaumunum? Hver er staðan? Jú, atvinnuleysi er á níunda prósenti en fer vaxandi. Aðgerðaleysi stjórnvalda og seinagangur í að koma skuldsettum heimilum og fyrirtækjum til raunverulegrar aðstoðar með almennri niðurfærslu veldur því að allt er stopp. Bankarnir nota skjól sem þeir fá frá aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar til að afskrifa skuldir stórfyrirtækja og eignalausra eignarhaldsfélaga en stympast við að fara í raunverulegar, almennar, gegnsæjar leiðréttingar á höfuðstól lána. Seðlabankinn hlýðir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og í skjóli aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar þverskallast hann við að lækka vexti, vexti sem eru að sliga atvinnulífið og heimilin en eru góð búbót fyrir fjármagnseigendur, sérstaklega þá sem sitja á krónubréfunum. Margar góðar tillögur hafa komið fram á sl. tólf mánuðum til að leysa þennan vanda, en nei, ríkisstjórnin velur aðgerðaleysi.

Ósamkomulag Vinstri grænna og Samfylkingar um stefnu í atvinnumálum veldur því m.a. að umhverfisráðherra kemst upp með að túlka skipulagslög á nýjan hátt með ófyrirséðum afleiðingum. Afleiðingin er stöðvun allra framkvæmda sem tengjast virkjunum eða stóriðju. Stöðugleikasáttmálinn er í uppnámi. Samtök atvinnulífsins hafa margsinnis lýst því yfir, núna síðast vegna fyrirhugaðra áætlana ríkisstjórnarinnar og stórfelldra breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu, svokallaðs skötuselsfrumvarps, sem ríkisstjórnin fyrirhugar á næstu dögum að taka fyrir til 3. umr. hér í þinginu. ASÍ og önnur launþegasamtök auglýsa grimmt þessa dagana að þau krefjist þess að framkvæmdir verði boðnar út hið fyrsta.

Niðurstaða þessarar upptalningar á stöðu atvinnulífsins er hvergi tæmandi, því miður. Þrátt fyrir góð orð og vonandi raunverulegan vilja gengur ríkisstjórninni afleitlega að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það gengur ekki lengur, nú verða allir að taka höndum saman, eins og okkur er að takast smátt og smátt í Icesave-málinu, finna samstöðugrundvöllinn og fara að framkvæma. Framsóknarflokkurinn er til, framtíðin er í höndum okkar sjálfra.