138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem var dálítið athyglisvert. Hv. þingmaður segir: LÍÚ vill aldrei sátt og mun ekki vilja neina sátt. Það getur verið skoðun hv. þingmanns, ég ætla ekkert að dæma um það hvort þeir vilji sátt eða ekki sátt.

Ég benti hins vegar á það í ræðu minni að allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fyrir utan einn vilja ekki þetta ákvæði. Það var það sem ég var að benda á. Meiningin í ræðu minni var gagnrýni á að ráðherrann mætti á fundi hjá hagsmunasamtökum og gaf misvísandi upplýsingar í allar áttir þegar menn spurðu hvort hann hygðist gera þetta eða spá í þetta vegna þess að það er boðuð fyrningarleið og hvernig hún eigi að vera þar sem hún er á floti og hvort hún verði og hvernig og alla vega. Um það er ekki deilt, hver túlkar það með sínu nefi. Þá segir hann: Ég vil ekki ræða efnislega einstaka hluti vegna þess að ég er búinn að skipa sáttanefnd til að fara yfir málin í heild sinni og síðan mun ég taka tillit til þess og sjá hvað kemur út úr því, ég vil gefa nefndinni frið. Það er þetta sem ég var að benda á.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að auðvitað getur Alþingi sett lög alveg eins og það vill og gerir það bara, það er ekkert vandamál með það. Mér fyndist þó mjög sérkennilegt ef hæstv. fjármálaráðherra hefði sagt: Nú ætla ég að skipa nefnd til að fara yfir allt skattkerfið og þegar sú vinna er búin mun ég kafa ofan í það og hugsanlega gera breytingar, en væri síðan í að flytja frumvörp eins og hv. þingmaður var að benda á. Því er ekki saman að líkja. Ég veit ekki betur en að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn hafi flutt fullt af frumvörpum sem mjög margir voru ósáttir við í sambandi við skattamálin í fyrrahaust. Margir bentu á hvað það gæti haft slæmar afleiðingar sem eru því miður að koma í ljós.

Aðalatriðið er að ráðherra sem skipar starfshóp með öllum fagaðilunum til að fara yfir málið, (Forseti hringir.) hugsanlega koma með breytingar og úrbætur, gerir þá ekki svona hluti á meðan.