138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað fyrra atriðið varðar var það rætt og niðurstaðan er sú sem kemur fram í frumvarpinu.

Að því er svæðaskiptingu varðar var hún rædd fram og til baka og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra spurður fyrir nefndinni hver svæðaskiptingin yrði. Hann upplýsti það að hún yrði í meginatriðum óbreytt. Þó hygg ég að svæðið fyrir Norðurlandi kunni að taka einhverjum breytingum en í meginatriðum verður hún óbreytt.

Það var ákveðið að setja inn í þetta sérstakan kvóta og blanda þessu ekki saman við byggðakvótann og ég hygg að það sé það sjónarmið ríkisstjórnarinnar að efla landsbyggðina enn frekar, það hafi orðið ofan á í þessu máli.