138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd. Hins vegar er farið yfir alla háskólana út frá styrkjum sem þeir þáðu frá fjármálastofnunum, þ.e. Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Aðrir virðast ekki koma fram í þessum tölum. Síðan má rökstyðja að það er kannski fjallað sérstaklega um Háskóla Íslands en þó koma aðrir háskólar við sögu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta þarf að ræða í öllu háskólasamfélaginu því að ef við eigum að skoða hagsmunatengsl snýst það ekki aðeins um styrkveitingar sem þessar heldur líka um eignarhald og hvaða áhrif það getur haft á starfsemi háskólans, eins og hv. þingmaður nefnir. En það þarf líka að skoða hvernig innra starf háskólanna rímar við hlutverk þeirra í samfélaginu. Eitt af því sem ég hjó eftir í þessari skýrslu er sá lærdómur sem nefndur er: „Hvetja þarf háskólamenn til að sýna samfélagslega ábyrgð svo sem með þátttöku í opinni umræðu á fræðasviði þeirra.“

Hér kemur fram af hálfu fjölmiðla sem hafa iðulega rekið sig á það, segir í skýrslunni, að „fræðimenn á sviði lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði vildu ekki tjá sig um álit í viðskiptum, sumir af því að þeir voru í vinnu fyrir viðskiptablokkirnar, aðrir af því að þeir óttuðust neikvæð viðbrögð við gagnrýni“. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem við hljótum að taka til skoðunar í öllum háskólum í framhaldinu og hvernig þessum málum er háttað og hvernig við getum hvatt til þess að háskólarnir sem eiga að vera hið gagnrýna afl samfélagsins sinni því hlutverki sínu og innri reglur þeirra og ytri umgjörð stuðli að því að þeir geti sinnt þessu hlutverki sínu.