138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er fullgilt að spyrja að þessu. Nú vil ég að vísu mæla þau orð, bæði þeim til varnar sem um véluðu á löngu liðnum tímum og eins þeim sem það gera nú og munu gera það í framtíðinni, að menn mega náttúrlega ekki gefa sér að sú mynd sem dregin er upp í skýrslunni af stjórnlausu ástandi undir lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar sé hin hefðbundna mynd af ástandinu í Stjórnarráði Íslands eða stjórnsýslunni. Sem betur fer tel ég að svo sé ekki. Þar er auðvitað dregin upp mynd af bæði mannlegum samskiptum og verklagi sem er með ólíkindum. Ég held að það helgist að einhverju leyti af því ástandi sem þá var að skapast og var orðið, því ráðleysi og þeim erfiðleikum sem menn stóðu frammi fyrir og vissu sig í raun og veru sigraða gagnvart, en gátu ekki játað það.

En það er rétt og skylt að fara yfir það hvernig t.d. ákvarðanatökum er háttað, hvernig rekjanleiki og undirbúningur ákvarðana er, hvort sem það eru flokksformenn sem hittast eða ráðherrar í ríkisstjórn eða aðrir. Þessi ríkisstjórn hefur tekið upp breytt verklag að ýmsu leyti, t.d. með formlegum ráðherranefndum, sem hafa erindisbréf eða verklagsreglur, færa fundargerðir og afrit af þeim fundargerðum ganga til annarra ráðherra. Þetta eru ráðherranefndir um efnahagsmál, ríkisfjármál, Evrópumál og jafnréttismál. Þetta er tvímælalaust framför hvað þessa málaflokka varðar.

Ég held að í samhengi við upplýsingalög þurfi að endurskoða algerlega meðferð og skráningu gagna, flokkun gagna, málaskrár ráðuneyta og undirbúning og rekjanleika ákvarðana, þannig að alltaf sé hægt að opna bókina ef eftir því er óskað. Að sjálfsögðu þarf jafnframt að vera hægt að hafa trúnað um viðkvæm mál á einhverju stigi, þannig að mörkin á milli upplýsingalaga og þess réttar sem menn hafa til að sækja upplýsingar inn í stjórnsýsluna á hverjum tíma þarf að draga upp með skýrum hætti. Upplýsingalög mega auðvitað ekki verða til þess að menn hætti að þora að setja hluti á blað, því það getur haft alveg þveröfug áhrif við það sem ætlað er, (Forseti hringir.) að þá fari menn einmitt að funda með óformlegum hætti án þess að færa fundargerðir (Forseti hringir.) og díla um málin þar.