138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:12]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem við ræðum hér er mikið verk og þarft. Eiga skýrsluhöfundar hrós skilið fyrir vinnu sína. Öllum steinum er velt og engum hlíft — eða næstum engum. Skýrslan varpar heildstæðu ljósi á þá atburði sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins. Skýrslan er áfellisdómur yfir fjölmiðlamönnum, fræðasamfélaginu, stjórnsýslunni, atvinnulífinu, en þó alveg sérstaklega bankamönnum og okkur stjórnmálamönnum. Við eigum að nálgast umfjöllun um skýrsluna af auðmýkt, læra af því sem miður fór og bæta það sem bæta þarf. Það er gleðilegt að hið hefðbundna pólitíska karp hefur verið í lágmarki og að umfjöllun á Alþingi hefur að mestu verið á málefnalegum nótum. Í skýrslunni eru dregnar margar góðar ályktanir og bent á það sem betur má fara þótt ég sakni þess að atburðirnir skuli ekki hafa verið settir í alþjóðlegt samhengi.

Einn þátt sem ég tel vera einn af þeim mikilvægari í aðdragandanum sýnist mér skýrsluhöfundum þó sjást yfir. Fyrir allnokkrum árum var eftirlit með bönkum aðskilið starfsemi Seðlabanka Íslands. Hin nýja stofnun, Fjármálaeftirlitið, fékk í grófum dráttum það hlutskipti að hafa með höndum neytendavernd og eftirlit með einstökum fjármálastofnunum. Seðlabankinn fékk aftur á móti það hlutverk að fylgjast með kerfisáhættu á fjármálamörkuðum og tryggja fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. Með öðrum orðum hafði Fjármálaeftirlitið eftirlit með trjánum en Seðlabankinn var skógarvörðurinn. Með nokkurri einföldun má segja að Fjármálaeftirlitið hafi farið inn í banka og haft eftirlit með því að þeir færu að lögum og reglum. Í dæmaskyni má ímynda sér að Fjármálaeftirlitið hafi farið inn í Glitni og skoðað stórar áhættuskuldbindingar og veðandlag í lánum til hlutabréfaviðskipta. Segjum að í ljós hafi komið að hlutabréf til trygginga lánum hafi verið í samræmi við lög og reglur en samt sem áður í hámarki. Segjum svo að áhættuskuldbindingarnar vegna fyrirtækis A og tengdra aðila hafi verið innan hámarks. Hér er farið að lögum og reglum og Fjármálaeftirlitið snýr ánægt frá.

Höldum nú áfram með söguna og gerum ráð fyrir að farið hafi verið inn í Kaupþing, Landsbankann og aðrar fjármálastofnanir. Myndin er sú sama innan allra fjármálafyrirtækja, fyrirtæki A hangir rétt fyrir neðan hámark um stórar áhættuskuldbindingar, farið er að lögum og reglum. FME hefur rækt hlutverk sitt og gefur út yfirlýsingu um að ekki sé hægt að gera athugasemdir við starfsemi bankanna og bankarnir standist álagspróf.

Víkur nú sögunni að Seðlabankanum sem á að fylgjast með kerfisáhættu. Hann hefur ekki þær upplýsingar sem FME hefur undir höndum. Eftir að hafa skoðað efnahagsreikninga bankanna, yfirlýsingar FME um að farið sé að lögum og reglum og aðrar upplýsingar gefur hann út að fjármálastöðugleiki í landinu sé tryggður.

Augljóst er að hér hafa fallið á milli skips og bryggju upplýsingar um samanlagða áhættu bankakerfisins. Þrátt fyrir að lán til fyrirtækis A í hverjum einstökum banka sé undir reglu um stóráhættu er kerfisáhættan gríðarleg.

Seðlabankinn vissi ekki að trén væru sýkt því að skógurinn virtist heilbrigður úr fjarlægð. FME vissi að einhver trjánna væru sýkt en taldi að skógurinn væri heilbrigður.

Eins og þetta dæmi sýnir er gjá milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka vegna mismunandi hlutverka stofnananna sem hefur leitt til þess að óæskileg kerfisáhætta getur byggst upp í kerfinu og það er viðkvæmara en ella.

Í skýrslu sem ég skrifaði vorið 2006 ásamt prófessor Frederic Mishkin, sem síðar varð einn af seðlabankastjórum Bandaríkjanna, varaði ég við þessu. Ein af þrem tillögum okkar Mishkins var að bæta eftirlit með fjármálakerfinu á Íslandi með því að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands. Eftir þessu var ekki farið, því miður. Á ársfundi Seðlabanka Íslands 31. mars 2006 kvað formaður bankastjórnar í ræðu sinni á um að þeir alþjóðlegu straumar sem leiddu til sundurgreiningar eftirlitsstofnananna á sínum tíma hafi nú snúist við. Það er skemmst frá því að segja að þessi ummæli voru túlkuð á þann veg að bankastjórinn væri að leggja til sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands til að auka eftirlit með fjármálastofnunum. Bankastjórinn var þegar í stað sakaður um að vilja gína yfir öllu, að hann væri valdagráðugur og þetta væri afleit tillaga. Þingmenn Samfylkingarinnar gengu þar fremstir í flokki.

Þau sjónarmið sem ég hef fjallað hér um tel ég sýna að stofnanaumgjörð á Íslandi átti þátt í að eftirliti með fjármálakerfinu og kerfisáhættu var ekki sinnt sem skyldi með ákveðnum afleiðingum. Menn geta ekki haldið því fram að fræðasamfélagið hafi brugðist því að benda á augljósan annmarka á eftirlitsumgjörðinni eins og er gert í siðferðishluta skýrslunnar. Það var gert. Jafnframt benti Seðlabankinn á sömu staðreynd en pólitísk tregða kom í veg fyrir að nokkuð væri gert.

Það er bagalegt að bankarnir hafi verið einkavæddir á ný án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til þess að bæta úr þáttum sem snúa að eftirlitsumgjörðinni og ég hef rakið hér. Við segjumst með hátíðarsvip ætla að læra en höfum þegar gert stór mistök. Við vitum ekki einu sinni hver á bankana. Mistök skýrsluhöfunda felast í að hafa ekki komið auga á þennan þátt málsins, að stofnanaumgjörðin hafi átt stóran hlut að máli í aðdraganda hrunsins.