138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það hefur sannarlega að gera með aðskilnað valdþáttanna og það skiptir máli fyrir allt þjóðfélagið. Það er rétt, við þurfum að efla þingið og ég held að við þurfum líka að huga að umræðuhefð í þinginu. Nú er ég forseti Norðurlandaráðs og er nýkominn af þeim vettvangi. Ég hef hugsað nokkuð um að við megum sannarlega læra margt af því hvernig nágrannar okkar hafa hagað sínum málum því að þeir hafa sannarlega reynst farsælli í samfélagsuppbyggingu sinni en við. Ég er ekki frá því að hluti af því sé einmitt umræðuhefð þeirra, löng lýðræðisleg hefð fyrir skoðanaskiptum þvert á flokka og málefnalegri umræðu, það þarf að gefa sér tíma í hana. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það geti hafa verið þannig þegar ég kom hingað til þings árið 2003 að við höfum að miklu leyti setið nefndarfundi í nefndastörfum þingsins, a.m.k. í þeim nefndum sem ég kom að, til að hlýða á gesti en í allt of litlum mæli setið nefndarfundi til að skiptast á skoðunum þingmanna og flokka á milli um ólík sjónarmið í málum og leitast við að finna sem allra besta niðurstöðu úr ólíkum skoðunum. Ég held að það sé sannarlega eitt af því sem við megum huga að í störfum þingsins, þessari umræðuhefð okkar.