138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra hversu viljugur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er til að koma til móts við skuldara af hvaða hópi sem þeir eru. Það er hins vegar spurning hvort allar þessar aðgerðir séu ekki of sértækar eða taki einfaldlega of langan tíma.

Við sátum nokkur á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun og fengum á fund okkar landstjórann svokallaða. Hann talaði um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri þeirrar skoðunar að skuldaaðlögun heimilanna tæki of langan tíma. Ég mundi gjarnan vilja fá að vita hvert álit hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er á því. Eru þessar sértæku aðgerðir allar sem hann er að bæta við of margar og flóknar og taka of langan tíma? Þurfum við kannski aðeins að velta fyrir okkur hvort ekki eigi að fara út í einhverja almenna niðurfærslu á höfuðstóli lána?