138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2010.

542. mál
[20:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir hlý orð hans um skjóta afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á þessu máli. Það er auðvitað þannig að þessi samningur krafðist ekki mikilla krafta. Hann er byggður á því sem hv. þingmaður náði sjálfur fram á meðan hann var sjávarútvegsráðherra. Hins vegar vil ég segja að mér þykir vænt um það sem hv. þingmaður segir um skyldur okkar gagnvart Færeyingum. Ég er honum algjörlega sammála um það. Við eigum að efla eins náið samstarf við Færeyinga á þessu sviði og hægt er. Það er alveg klárt að við engar aðrar þjóðir höfum við gert viðlíka samninga um viðskiptafrelsi og um fiskveiðar eins og við þá.

Eitt er það sem ég vil hér á pólitískum efri árum mínu rifja sérstaklega upp. Þegar ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vorum hér báðir nýkjörnir upp úr 1991, brast á með óvæntri kreppu í sjávarútvegi á Íslandi eins og hv. þingmaður man. Á þeim árum var gerð hörð hríð að þáverandi ríkisstjórn, sem við báðir studdum, vegna þess að hún hélt óbreyttri stefnu varðandi heimildir til Færeyinga til þess að veiða innan lögsögu okkar bæði þorsk og lúðu. Þá höfðu Færeyingar áratugum saman gert út á haukalóðir við Ísland og veiddu töluvert mikið af lúðu og enn meira af þorski en í dag. Þá stóðu menn hér á Alþingi í lappirnar og höfnuðu þeim atlögum sem gerðar voru að tillögum ríkisstjórnarinnar þáverandi um að halda þessum heimildum Færeyinga áfram við lýði. Fyrir það er ég glaður í dag.