138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2010.

593. mál
[21:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari tillögu til þingsályktunar leita ég heimildar Alþingis til þess að staðfesta samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2010. Þeir voru gerðir í London 22. október síðastliðinn.

Hér er í fyrsta lagi um að ræða sameiginlega bókun milli Evrópubandalagsins, Færeyja, Íslands, Noregs og Rússlands um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2010. Í öðru lagi er hér um að ræða samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2010. Í þriðja lagi er loks samkomulag milli Íslands og Rússlands um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu okkar á þessu ári.

Á fundi strandríkjanna, Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands, auk Evrópubandalagsins, í október sl., náðist samkomulag um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2010. Í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og fyrri ákvörðun aðila um nýtingarstefnu til lengri tíma var heildaraflamark að þessu sinni ákveðið 1.483.000 lestir. Veiðiheimildir aðila skiptast í sömu hlutföllum og verið hefur allar götur frá árinu 2007 og þær verða á þessu ári eftirfarandi:

Ísland 215.183 lestir,

Færeyjar 76.523 lestir,

Noregur 904.630 lestir,

Rússland 190.121 lest,

Evrópubandalagið 96.543 lestir.

Samhliða hinni fimmhliða sameiginlegu bókun voru líka gerðir tvíhliða samningar milli Íslands og Noregs og milli Íslands og Rússlands um heimildir til síldveiða í lögsögu aðila á þessu ári. Samningar þessir eru óbreyttir frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Í sérstökum samningi milli Íslands og Færeyja, um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2010, er kveðið á um að skipum hvors aðila verði heimilt að veiða allan sinn kvóta í norsk-íslenskri síld í lögsögu hins. Samhliða þessari þingsályktunartillögu hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um staðfestingu þess samnings.

Frú forseti. Þessir samningar eru okkur ákaflega mikilvægir. Það má segja að Ísland hafi á síðustu öld byggst upp á veiðum úr þessum stofni. Fyrir hið mikla hrun sem varð í efnahagslífi okkar árið 1967, þegar síldin hrundi, hafði stofninn komist í sögulegar hæðir. Það var aðallega byggt, eins og gerist með þessa fiskveiðitegund, á veiðum úr einum árgangi. Hafði aldrei komið fram jafnsterkur árgangur. Í dag eru það líka góðar fréttir fyrir okkur að norsk-íslenski síldarstofninn er á leið í sögulegar hæðir að nýju. Það sem er ef til vill gott við stöðuna eins og hún er að þróast í dag er að allt bendir til þess að komnir séu fram fleiri en einn og hugsanlega fleiri en tveir gríðarlega sterkir árgangar og að veiðin sé þegar tekin að byggjast að verulegu leyti á einum. Þetta eru góð tíðindi fyrir okkur til framtíðar. Þetta eru sérstaklega góð tíðindi fyrir okkur núna þegar við þurfum á því að halda að geta skapað sem mest verðmæti og sem mestan gjaldeyri úr þeim auðlindum sem við höfum yfir að ráða.

Sem betur fer er það þannig að í því andstreymi sem Íslendingum hefur mætt á síðustu tveimur árum hafa nánast allar fréttir úr hafinu verið góðar. Bæði blasir það við að þorskurinn, sem við byggjum sjávarútveg okkar að verulegu leyti á, er á hægri en þó sígandi uppleið. Ég tel að það sé til hróss þeim ríkisstjórnum sem hér hafa setið á síðustu árum að þær hafa ekki látið freistast til þess að taka út innstæðuna sem hugsanlega má segja við eigum í auðlindabanka hafsins. Þess í stað hafa Íslendingar sýnt varkárni og forsjálni við það að halda áfram að byggja þann stofn upp.

Sömuleiðis er það mikið hald að hafa þennan norsk-íslenska síldarstofn sem hefur staðið undir mikilli atvinnusköpun á síðustu árum og mikilli verðmætasköpun. Við það má síðan bæta að við höfum séð, sem eina af afleiðingum hlýnunar andrúmsloftsins, að vegna hitabreytinga sem því hafa fylgt í hafinu er komin ný tegund sem veiðist í miklu magni, á annað hundrað þúsund lestir árlega, þ.e. makríll, þannig að þetta er þó huggun ýmsum hörmum gegn. Og þá skiptir ákaflega miklu máli að okkur takist að leiða deilur til lykta um nýtingu þessara stofna. Það tókst eftir mikið streð og harðfylgi margra ríkisstjórna að ná þokkalegum samningi um norsk-íslenska síldarstofninn. Ég hef stundum sagt það hér í þessum ræðustól að ég er nú þeirrar skoðunar að hugsanlega hefðu menn á árum fyrri átt að standa fastar í fæturna. Ég var þeirrar skoðunar og er enn, og get byggt fyrir því mörg fiskifræðileg, sterk rök, að hrun stofnsins hafði ekkert að gera með ofveiði á Íslandi, heldur fyrst og fremst ofveiði á smásíld í lögsögu þess ríkis sem þessi stofn er kenndur við fyrir utan Ísland.

Núna er sú þróun að verða að þessi stofn er að stækka mikið eins og ég gat um fyrr í ræðu minni og þá gerist það sem við biðum eftir og sögðum hér, þegar við vorum að reifa þetta mál á Alþingi Íslendinga, að hann mundi taka upp fyrri útbreiðslu, þ.e. að síldin sem leitar út úr norskri fiskveiðilögsögu á ætisslóðir á þeim stöðum sem við kölluðum Rauða torgið hér í gamla daga, þegar við vorum á sokkabandsárum okkar að veiða síld, hún er að leita þangað aftur. Ég vænti þess að á næstu árum, eftir því sem þessir árgangar eru að koma svona feiknarlega sterkir inn, munum við sjá það í enn ríkari mæli og við munum upplifa það sama og við sáum fyrir árið 1970. Það mundi nú verða búhnykkur fyrir þjóð í svolítilli klípu.