138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:29]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði og ítreka aftur þá leituðum við álits hjá prófessor í stjórnskipunarrétti á þessu efni. Niðurstaðan var að þetta bryti ekki gegn stjórnarskrá vegna þess að það er ekkert val fyrir hendi. Tökum sem dæmi lækkun tryggingargjalds í 8. lið 9. gr., að það er t.d. ekki alltaf 20% þannig að annaðhvort greiðir maður gjaldið eður ei, það er ekkert val um það og það er ekki háð neinu mati hvort eða hvernig gjaldið er greitt eða hversu hátt hlutfall af því er greitt. Það er því alveg skýrt. Við settum þetta upp og unnum málið þannig að þetta væri eins skýrt og mögulegt er. Þess vegna er þessi upptalning í 9. gr. þar sem eru skýrir kostir, annaðhvort skattlagningin eða ekki, það er ekki mat á upphæðum hennar. Síðan liggur fyrir þessi skýra formúla varðandi arðsemisútreikninga sem ég nefndi áðan að unnin hefði verið af PricewaterhouseCoopers í Belgíu sem er notuð til grundvallar. Við erum með skýra ívilnunarkosti upptalda í 9. gr. sem fara inn í formúlu eða módel sem liggur líka skýrt fyrir.

Ég held, ef eitthvað er, að þessari þriggja manna nefnd sé frekar þröngur stakkur sniðinn heldur en hitt. Skilyrðin sem eru nefnd fyrir því að menn geti farið í slíkar viðræður við stjórnvöld eru líka býsna ítarleg og þröng. Nálgunin var frekar að ganga skemur en hitt.

Þetta er þriggja ára leiðangur sem við erum að leggja upp í og það þarf auðvitað að meta (Forseti hringir.) á hverjum tíma hvort þetta gagnist okkur eins og við ætlum og hvort gera þurfi breytingar á þessari löggjöf.