138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

rýmkun heimilda til útgreiðslu séreignarsparnaðar.

420. mál
[13:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 6. mars 2009, fyrir rúmu ári, flutti ég breytingartillögu við frumvarpið um að lífeyrissjóðum væri heimilt að skuldajafna þar sem fólk skuldaði mikið ef allar forsendur væru til þess að það mundi duga fólki. Ríkisstjórnin fór allt aðra leið. Hún fór þá leið að borga fólki út 70 þús. kr. á mánuði sem yfirleitt dugar ekki til þess að leysa bráðavanda heimilanna, sem eðli málsins samkvæmt hleypur á miklu stærri tölum, 5 eða 10 milljónum. Þeir eiga kannski 5 eða 10 milljónir í séreignarsparnaði.

Ég flutti breytingartillögu um það að það mætti skuldajafna inneigninni í séreignarsparnaði og það yrði gert með þeim hætti tæknilega að það kæmi ekki niður á lífeyrissjóðunum og greiðsluhæfi þeirra því að þeir mundu gefa út skuldabréf til að greiða útsvarið og skattinn.