138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:11]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla í ljósi þess að við höfum stórt fjárlagagat í að fylla og tökum að sjálfsögðu fulla ábyrgð á því að fylla í það á sem ábyrgastan og bestan hátt. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru mjög skiljanlegar í því ljósi.

Það er þó eitt atriði sem ég velti svolítið fyrir mér, af því að ég er í þeirri stöðu að eiga ungling sem er á mörkum grunnskóla og framhaldsskóla, og það er að ég sé sem fyrrverandi kennari á báðum þessum skólastigum að námsefni framhaldsskólanna er að hluta til komið inn í námsefni grunnskólans, þannig að ég velti svolítið fyrir mér að þegar við erum að fresta ákveðnum atriðum í framhaldsskólanum og framkvæmd nýrra framhaldsskólalaga en erum komin á fullt í að framfylgja grunnskólalögunum, hvort við gætum lent í einhverjum vandræðum þarna þannig að þeir nemendur sem eru að útskrifast úr grunnskóla á næstu árum séu jafnvel komnir með, eins og hugsað er, ákveðið grunnnámsefni framhaldsskólans. Við verðum að hafa í huga hvernig við ætlum að bregðast við því, sérstaklega í ljósi þess að það er eitt af því sem við höfum þurft að skera niður, það er einmitt það að hafa þessi mörk sem sveigjanlegust.

Mig langar líka til að áminna okkur öll um það að þó að við þurfum að skera niður megum við alls ekki missa kúrsinn. Menntun ungmenna er ein af grunnstoðum samfélagsins, bæði hversu margir fara í gegnum ákveðna menntun og gæðin. Þess vegna verðum við að forgangsraða. Við eigum frekar, finnst mér, að vernda menntun ungmenna en ýmislegt annað og við eigum að vernda menntun allra nemenda, líka þeirra sem eiga auðveldara með margt annað en bóknám.