138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum þessa umræðu og þakka líka þann skilning á málefnum framhaldsskólans sem hér kemur fram því að það liggur fyrir að framhaldsskólar eru í erfiðri stöðu. Ekki aðeins er við að eiga 100 milljarða halla á ríkissjóði heldur hefur framhaldsskólakerfið verið rekið mjög vel undanfarinn áratug. Það hefur verið tekið mjög fast á fjármálum og rekstri þess kerfis. Kennurum og starfsfólki hefur fjölgað mun hægar en nemendum þannig að álag á skólakerfið hefur aukist á sama tíma og skólar hafa velflestir komist upp úr hallarekstri. Við höfum því séð kerfi þar sem ekki hefur verið bruðlað með fjármuni þannig að það er enga fitu að skera af þegar kemur að því að draga saman í útgjöldum. Því er ég mætt með þennan boðskap, sem kannski ekki er skemmtilegur, sem kallar á þessa frestun.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um einingarnar. Við vinnum enn að þeim markmiðum að skipta yfir í einingar sem byggjast á vinnu nemenda. Sú vinna er nokkuð af stað komin, í raun og veru í samráði við kennara og skólameistara þannig að ég á von á því að það muni ganga eftir þrátt fyrir þessa frestun. Það má deila um það hvort það sé of langt að fresta til 2015. Við ákváðum að taka enga „sénsa“ eins og það heitir á vondu máli en það er eðlilegt að ræða það bara í hv. menntamálanefnd hvort eigi að stytta þann frest. Ég leyfi mér þó að segja, því að minn boðskapur hefur verið sá við framhaldsskólana, kennara, skólameistara, nemendur að nú séu þeir tímar að við munum þurfa að fresta einhverju af þessu og fólk hefur sýnt því skilning en það hefur alls ekki látið það neitt stöðva sig. Það er í sjálfu sér jákvætt því að það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi líka að það kosta ekki allar breytingar. Við sjáum að skólafólk hefur að mörgu leyti aðlagað sig breyttum tímum og haldið áfram með þróun á námsframboði þó að það geymi þá þennan hluta laganna. Ég vil bara nýta þetta tækifæri til að segja að mér finnst frábært hvað það er mikil gróska í starfi í framhaldsskólunum á sama tíma og þeir eru undir þessu mikla álagi og mikilli aðsókn. Við sjáum það að í fyrra voru ríflega 96% nemenda sem sækja um og fyrstu tölur úr forinnritun núna gefa það sama til kynna. Það er því auðvitað gríðarleg ásókn á sama tíma og fleiri eldri nemendur eru að snúa aftur í nám.

Vinnustaðanámssjóðurinn, ég get verið sammála því að það var hugmynd sem var algjörlega þverpólitísk samstaða um en hins vegar er þetta eitt af þeim nýmælum sem er erfitt að lofa þegar verið er að draga saman þannig að við leggjum til óbreytt ástand í þessum efnum og frestun á þessu, en þetta snertir starfsnámið sem er þarna og við hefðum auðvitað viljað efla og styrkja. Þetta þarf að ræða, þetta snýst um það að hér er nýmæli sem hefur í för með sér útlát sem við sjáum hreinlega ekki hvernig við eigum að brúa.

Hvað varðar skilin teljum við mjög mikilvægt að í tengslum við þá fjárlagavinnu sem nú stendur yfir að vinna með sveitarfélögunum að þessum skilum. Við vitum það alveg að við nutum ekki mikilla vinsælda eftir að við hættum að greiða fyrir kennslu 10. bekkinga í framhaldsskólum. Sú umræða hefur orðið til þess að við höfum farið í umræðu og mörg einstök sveitarfélög hafa lýst áhuga á því að skoða þetta sérstaklega. Það kom fram á menntaþingi 5. mars sl., að það er mikill áhugi á því að skoða líka skólakerfið í heild sinni. Er hugsanlegt að við náum fram markmiðum um sveigjanlegri skil þannig að nemendur geti jafnvel farið fyrr upp í framhaldsskóla, þ.e. verið skemur í grunnskóla en áður, jafnvel bara níu og hálft ár? Þetta var ein af þeim hugmyndum sem komu fram á menntaþingi og horfa á þetta þannig heildstætt en ekki eingöngu út frá framhaldsskólanum ef svo má segja. Þetta var rætt. Ég er ekki að segja að þetta sé neitt sem hafi verið ákveðið en þetta höfum við sagt, við þurfum að skoða þessa heildarsýn, auðvitað í nánu samráði við sveitarfélögin, hvernig við sjáum þessi skil verða og líka svo aftur úr framhaldsskólunum upp í háskólana. Það eru auðvitað líka spurningar sem hafa vaknað bæði um námsefnið, það hafa vaknað spurningar út af breyttu fyrirkomulagi samræmdra prófa. Um það breytta fyrirkomulag var líka mikil samstaða hér á þinginu. Við þurfum auðvitað að sjá hvernig þetta fyrirkomulag gefst og læra af þeim fyrirmyndum sem við tókum okkur þá, það voru Finnar, hvernig þeir hafa svo unnið með þau samræmdu könnunarpróf sem þar eru. Það eru því, eins og ávallt í þessum málaflokki, óteljandi verkefni.

Að öðru leyti vona ég að ég hafi svarað því sem til mín var beint. Ég vona bara að hv. menntamálanefnd fari vel yfir málið í umræðu sinni.