138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

484. mál
[12:03]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að svara þessu. Hér er verið að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA og verið að mæta hluta þeirra en hluta þeirra erum við tilbúin að rökræða áfram við stofnunina og þess vegna fara með fyrir dóm. Það er einfaldlega þannig eins og hv. þingmaður veit að við höfum ekki pólitíska aðkomu að mótun þeirra reglna sem eru mótaðar á Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Ég skil alveg ef hv. þingmaður telur mikilvægt að við fáum sæti við borðið og að rödd okkar heyrist og við getum haft áhrif á gerð, efni og hagsmunamat sem liggur þar að baki og tillögugerð á evrópskum vettvangi sem við erum síðan meira og minna skuldbundin til að innleiða eins og það kemur frá Evrópusambandinu vegna EES-samningsins. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að mikilvægt sé að við fáum meira vald yfir þeirri Evrópulöggjöf sem við innleiðum og bendi á að enginn þeirra flokka sem hefur talað gegn aðild að Evrópusambandinu treystir sér til þess að mæla fyrir því að við segjum okkur úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Þess vegna deili ég þeirri skoðun með hv. þingmanni að gott sé ef við verðum aðilar að Evrópusambandinu, fáum aðild að ákvörðunum, getum setið við borðið þegar þær eru teknar, höfum áhrif á hvernig löggjöfin er útbúin. Ég fagna því að hv. þingmaður sé orðinn talsmaður aðildar að Evrópusambandinu.