138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[12:51]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Í sjónvarpsfréttum fyrir tveimur dögum var viðtal við mann sem hefur verið atvinnulaus í heilt ár. Hann grét fyrir framan alþjóð vegna þess sem hann hefur verið að ganga í gegnum. Á Suðurnesjum eru 1.800 manns atvinnulausir. Með því að styðja þetta frumvarp tek ég afstöðu með því fólki. Ég er ekki að styðja við útrásarvíkinga eða siðlausa menn, ég er að styðja þetta fólk sem er atvinnulaust á Suðurnesjum. Ég tek afstöðu með því. Þó að manni sé illa við einn af þeim sem svamlaði í sjónum eftir slys, kastar maður samt sem áður björgunarhringnum til hans, er ekki svo? Ég tek afstöðu með fólkinu á Suðurnesjum. Í því felst afstaða mín, með þessu frumvarpi, með fólkinu.