138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

kennitöluflakk.

497. mál
[16:04]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spyr hvers vegna þetta frumvarp sé svona opið hvað varðar að veita hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vald til þess að setja reglugerð um hversu oft fyrirtæki geta farið í þrot áður en þeim verður neitað um skráningu. Jafnframt spyr hann hvort leitað hafi verið eftir fordæmum, t.d. á Norðurlöndunum.

Svörin við þessum spurningum eru eiginlega samhljóma því að við leituðum fordæma á Norðurlöndunum, eins og oftast nær þegar frumvörp eru unnin. Löggjöfin á Norðurlöndunum er mjög spör á bönn og boð en í reglugerðum er síðan ítarleg útlistun á því við hvað og hverja viðkomandi bönn og boð eiga. Því má eiginlega segja að þetta sé miklu frekar í anda norrænnar löggjafar en breskrar og amerískrar.

Ástæðan fyrir því að frumvarpið er mjög opið er líka sú að við megum ekki koma í veg fyrir að fólk stofni nýsköpunarfyrirtæki eða fyrirtæki sem eru líkleg til þess að fara í þrot. Ég geri ráð fyrir því að í reglugerð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra verði fyrirtækjum leyft að fara allt upp í tíu sinnum í þrot áður en til synjunar á skráningu kemur. Það er sem sagt ekki markmiðið að draga úr (Forseti hringir.) frumkvöðlastarfsemi á Íslandi.