138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

notkun rannsóknarskýrslu Alþingis í skólastarfi.

[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, að sjálfsögðu er það möguleiki. Í raun og veru má segja að í rannsóknarskýrslunni sé verið að takast á við mjög hefðbundnar siðferðilegar spurningar sem eru ekkert einsdæmi í þessari rannsóknarskýrslu. Til að mynda vangaveltur um hvort reglur eru settar af einhverjum ástæðum eða hvort þær eru bara út í bláinn. Það kemur t.d. fram að það var mjög mikil vanvirðing gagnvart regluverkinu almennt. Að sjálfsögðu er hægt að nota ýmiss konar dæmi úr rannsóknarskýrslunni en í raun og veru held ég að hún fáist við mjög sígildar spurningar. En ég held að það sé mjög mikilvægt ef við ætlum okkur, sem ég vil að við gerum, að innleiða í ríkari mæli siðfræðikennslu og gagnrýna hugsun í skólakerfið, að við skoðum bæði það námsefni sem fyrir er, hvort þörf er á nýju námsefni og líka hvernig hægt er að fylgja því eftir með símenntun og endurmenntun kennara. Það er kannski ekki það sem minnst er um vert, að virkja þá sem starfa í skólunum til að skoða þessar hugmyndir.

Ég hef fundið fyrir miklum áhuga á þessu og þetta er sem sagt í skoðun í tengslum við hina nýju námskrá.