138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er rétt, nokkrum sinnum áður hefur verið tekin upp umræðan um hvort þingmenn sem koma úr stjórnarflokkum hverju sinni hafi sama málfrelsi og þingmenn sem koma úr stjórnarandstöðuflokkum, þ.e. hvort þeir hafi leyfi til að spyrja ráðherra ýmist úr hinum stjórnarflokknum eða sínum eigin flokki. Ég mótmæli því kröftuglega enn einu sinni eins og ég hef áður gert úr þessum ræðustól að þingmenn úr stjórnarflokkum eigi ekki að hafa sama rétt til að leggja fram spurningar undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Forseti hefur vissulega iðulega hagað málum þannig að taka þingmenn stjórnarandstöðunnar fram fyrir í röðina. En þegar verið er að tala um eftirlitshlutverk Alþingis hafa þingmenn stjórnarflokkanna líka eftirlitshlutverki að gegna (BJJ: Breyta þingsköpum.) og það eftirlitshlutverk eiga þeir að geta rækt í þingsal í opnum fyrirspurnum til ráðherra sinna og ekki inni á lokuðum (Forseti hringir.) þingflokksfundi, eins og mér fannst hv. þm. Birkir Jón Jónsson vera að ætlast til.