138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala á HS Orku.

[15:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það fer vel á því að þingmaður úr röðum framsóknarmanna hefji umræðu um þetta mál því að framsóknarmönnum er það nokkuð skylt. Þeir stóðu að því á sínum tíma að hefja einkavæðingarferlið á Hitaveitu Suðurnesja sem síðan hefur dregið langan slóða og til varð Geysir Green Energy og hið fræga REI-mál o.fl. og stórbrotnir draumar um að fara í mikla útrás í þessum efnum. (BJJ: Þetta er rangt.) Vandinn er sá að spurningin sem snýr að ríkinu í þessum efnum er hvort ríkið eigi að leysa aftur til sín hluti sem aðrir hafa selt úr opinberri eigu og hvort það er í færum til þess eða kemst að málunum. Vonir voru bundnar við það alveg fram undir það síðasta að innlendir fjárfestar, lífeyrissjóðir eða Framtakssjóður þeirra sem var í viðræðum um kaup á þessum hlut sem nú skipti um hendur í nótt sem leið, mundu halda þann eignarhlut og þannig yrði a.m.k. innlend meirihlutaeign tryggð. Það er svo ekki fyrr en á helginni sem í ljós kemur að þær viðræður hafa fjarað út og að það stefnir í að salan verði til Magma Energy sem eignist þá fyrirtækið að fullu.

Þá óskuðu stjórnvöld eftir því að þeim áformum yrði slegið á frest og menn fengju færi á að skoða málið, eftir atvikum ganga inn í þau kaup ef um það hefði getað orðið samstaða, a.m.k. fá tíma til að skoða málið. Það er skemmst frá því að segja að þeim óskum stjórnvalda var hafnað og gengið frá málinu í gærkvöldi.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum og það verður reynt að tryggja með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal í gegnum eignarhald ríkisins á þeim þremur stóru orkufyrirtækjum sem ríkið á nú þegar og hefur staðið vel við bakið á sem eigandi, Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða. Það er sömuleiðis stefna okkar að eðlilegt afgjald komi fyrir allar auðlindir. Nýlega er komin fram skýrsla þar um sem þarf síðan að finna form og eftir atvikum binda í lögum. Er ég þá að vísa til nefndar sem Karl Axelsson veitti forstöðu. (Forseti hringir.) Ég kannast ekki við að um það sé nokkur minnsti ágreiningur að búa eins vel og hægt er með lögum og öðrum úrræðum um það að þjóðin eigi auðlindir sínar. (Forseti hringir.) Það er ekki núverandi ríkisstjórn sem hefur stoppað að það komist inn í stjórnarskrá og að arðurinn af afrakstri þeirra lendi hjá íslensku þjóðinni.