138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu sem varpar ljósi á mjög lítið mál, sérstaklega hvað það er orðið lítið. Ég er með frumvarpið sjálft þar sem lagt var til að sérákvæði um yfirlækna, yfirhjúkrunarfræðinga og deildarstjóra hjúkrunar verði fellt brott úr lögum. Nú er allt í einu horfið frá því í meðförum nefndarinnar og þá er allt í einu farið að tala um — pínulítil grein sem segir að forstjóri og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skuli hafa samráð við faglega yfirmenn í heilsugæslunni þegar sérmál hennar eru til ákvörðunar. Er ekki búið að draga allt bit úr því sem átti að vera? Er þetta ekki orðið tómt mál að tala um? Að það þurfi að hafa samráð, hvað þýðir það? Hvernig lýst ykkur á þetta og svona? Og svo segja þeir að þetta sé alveg hræðilegt og það skiptir ekki máli.

Miðað við það frumvarp sem lagt var fram var reynt að glíma við þennan vanda sem er þrískipting heilbrigðisstofnana sem er reyndar um allan heim — hjúkrun, lækning og annað starfsfólk og að þetta fólk vinnur eiginlega ekkert saman. Það er aðalvandinn í heilbrigðiskerfinu. Ég hafði vonast til þess að hrunið yrði nægilega mikið til að menn tækju á þessu en það virðist ekki vera. Nú er komið eitthvert frumvarp sem er ekki neitt neitt, að hafa skuli samráð við faglegar yfirstjórnir en faglega yfirstjórnin á áfram að vera algjörlega ósnortin. Ég spyr hv. þingmann: Er þetta það sem við ætlum að sjá í heilbrigðisþjónustunni á næstu árum?