138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, enda er hann að taka undir tillögu mína. Það sem vantar inn í umræðuna er að vaxtagjöld koma ríkinu ekkert við og tap á hlutabréfum koma því heldur ekki við. Þegar maður tapar 10 milljónum af ævisparnaði sínum af því að hlutabréfin hans hurfu eða stofnbréfin hurfu kemur ríkinu það bara ekkert við þó að það sé í rauninni tap og ætti að færast til gjalda. Þetta er kerfisvillan í dæminu og þess vegna er fáránlegt að taka niðurfellingu á skuldum sem tekjur. Það er bara meinloka.

Maður sem átti fasteign, ævisparnaður hans, hann er kannski sextugur, sjötugur, búinn að spara alla ævina og keypti fasteign fyrir nokkrum árum á 30 milljónir. Nú er hann að fara á elliheimili, sjötugur, og selur fasteignina á 20, tapar sem sagt 10 milljónum. Halda menn að hæstv. fjármálaráðherra komi það eitthvað við? Ónei, honum kemur það ekkert við. Maðurinn skal sjálfur bera tap sitt á ævisparnaðinum upp á 10 milljónir sjálfur.

Ég hef verið að undirstrika það í allan dag í þessari umræðu að þetta er ekki rökrétt. Vaxtagjöld koma ekki til frádráttar og sölutap er ekki til frádráttar. Allir þeir 60 þúsund einstaklingar sem töpuðu hlutabréfum og stofnbréfum og þurfa að hlusta á það að fjármagnseigendur hafi allt sitt á þurru eru eflaust mjög glaðir að heyra það, þeir sem töpuðu ævisparnaðinum í gegnum hlutabréfin. Það kemur ríkinu bara ekkert við. Þeir geta ekki dregið þetta frá skatti, ónei. Og svo láta menn sér detta í hug að ef þeir sem skulda fá felldar niður skuldir eigi það að koma til tekna. Þetta er bara fáránlegt.