138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

gjald fyrir ónýttar yfirdráttarheimildir.

471. mál
[13:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Þetta voru gleðileg svör frá hæstv. ráðherra um að bankastofnanir séu hættar að taka heimildargjald. Sú síðasta gerði það nokkrum dögum eftir að fyrirspurn mín var lögð fram. Ég held að þetta sýni fram á að Neytendasamtökin hafa verið að vinna vinnuna sína hvað þessi mál áhrærir því að það voru að mínu viti þau sem vöktu athygli á þessu ósanngjarna máli á sínum tíma.

Hæstv. ráðherra kom hér inn á lykilþátt sem er samkeppni um viðskiptamenn á milli fjármálastofnana. Nú er staðreyndin sú að Alþingi Íslendinga hefur verið ákveðinn flöskuháls þegar kemur að samkeppnisumhverfi viðskiptabankanna. Er ég að vitna til þess að við leggjum hér á gjald eða skatt fyrir fólk sem vill skipta um viðskiptabanka með stimpilgjaldinu sem við höfum svo oft rætt um. Ég held því að við þurfum hér á þinginu að fara að horfa á þetta umhverfi í heild sinni og skoða hvort við getum ekki gripið til einhverra aðgerða til að auðvelda fólki að skipta um viðskiptabanka. Ef fólk sér fram á betri kjör í öðrum viðskiptabanka en sínum eigin verður viðkomandi, eins og staðan er í dag, að greiða lán sín upp og tekin eru ákveðin gjöld af færslu á fjármunum eða fjárskuldbindingum.

Ég held því að við þurfum að halda vöku okkar í þessu efni, hafa virkt eftirlit með þessum markaði og reyna að koma á raunverulegri samkeppni þar á milli og hlutast til um að auðvelda fólki eins og kostur er að skipta um banka til þess að viðhalda þessari samkeppni þannig að fólk borgi lægri fjármagnskostnað en ella. Eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nefndi réttilega hér áðan borga íslensk heimili hvað hæsta gjald fyrir fjármagn í víðri veröld og eru heimilin skuldug fyrir.