138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[17:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði raunar að koma hingað upp og tjá mig um mál fjögur, fimm og sex, öll í einu. Vegna þess hvernig við höfum unnið þetta vil ég hvetja þingmenn til þess að kynna sér málið mjög vel á milli 2. og 3. umr. og gefa sér góðan tíma til þess að lesa frumvörpin og nefndarálitin því þetta eru stór mál. Þau vekja upp ýmsar spurningar varðandi eignarréttarákvæði og afturvirkni laga. Ég tel hins vegar að með þessu frumvarpi, eins og félags- og tryggingamálanefnd hefur unnið það, sé búið að svara því að við séum að koma á meira jafnvægi á milli lánveitenda og lántakenda.

Ég hef líka orðað áhyggjur mínar af því að ekki sé nægilegur hvati í greiðsluaðlöguninni til þess að kröfuhafar samþykki að fara í frjálsa greiðsluaðlögun. Ég held að það sé mjög mikilvægt að félags- og tryggingamálanefnd skoði það virkilega vel vegna þess að það eru engin fordæmi í Evrópu um að flest mál hafi farið í gegnum frjálsa greiðsluaðlögun. Þau hafa flest endað fyrir dómstólum og oft tekið langan tíma að afgreiða þau.

Þetta eru góð mál en ég ítreka líka það sem ég hef sagt áður að þetta eru sértæk úrræði fyrir þá sem eru verst staddir. Núna munum við ekki taka í gegn fjórðung af íslenskum heimilum sem er í miklum vanda heldur tökum við hér á vanda þeirra sem eru langverst staddir.