138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða mikið uppstokkanir á ríkisstjórninni en menn vita auðvitað að þegar verið er að stokka upp í ríkisstjórn er það jafnan gert til að styrkja hana. Ég hef fulla trú á því að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson styrki ríkisstjórnina og læt mér jafnvel koma til hugar að ríkisstjórnin hugsanlega hafi þá meiri hluta fyrir fjárlögunum. [Hlátur í þingsal.]

Ég kem þó í pontu til að ræða Icesave. Ég er ósammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um að yfirlýsingar Evrópusambandsins skipti einhverjum sköpum fyrir okkur. Það hefur alltaf legið fyrir að ekki hefur verið ríkisábyrgð á þessari skuld. Það kom algjörlega skýrt fram í umfjöllun fjárlaganefndar. Ég tel hins vegar að menn eigi ekki að vera að horfa aftur í tímann. Ég held að við eigum að reyna að leysa þessa deilu með samningum og ég tel algjörlega nauðsynlegt að þingið afgeri það. Ég hef áður sagt að ég telji að stjórnarandstaðan hafi unnið af heilindum að því máli þegar hún kom að því og ég óska eftir því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að hún haldi því áfram. Ég tel ekki hægt að leysa þetta án aðkomu stjórnarandstöðunnar. (VigH: Er það virkilega?)

Ég tel sömuleiðis mikilvægt að ljúka þessu með samningum, að það fari ekki ESA-ferlið á enda og lendi í dómstólum. Ástæðan er eftirfarandi: Ég óttast að þá komi nýir þættir inn í málið. Það er einkum tvennt sem ég óttast. Í fyrsta lagi gæti verið gerð atlaga að neyðarlögunum. Ég held að þeirri atlögu yrði hrundið vegna þess að fyrir liggur forúrskurður sem er nokkuð jákvæður. Það sem ég óttast meira er að gerð verði atlaga að því að — hið svokallaða „top-up“ er partur af forgangskröfu og ég óttast að veikleikarnir gætu verið meiri þar. Ef því yrði breytt mundi það leiða til þess að almennir kröfuhafar fengju miklu meira. Það yrði minna eftir upp í það sem við þyrftum hugsanlega að standa skil á í samningum. Það gæti leitt til þess að sá partur af þrotabúinu sem kæmi til forgangskrafna færi niður í 60%. Það gæti aftur leitt til þess að það sem (Forseti hringir.) við þurfum að standa skil á hugsanlega síðar yrði miklu hærra og upphæðin gæti þess vegna margfaldast. Í staðinn fyrir að hlaupa á ríflega 100 milljörðum kr., 100–200 milljörðum, (Forseti hringir.) yrði upphæðin kannski mörg hundruð milljarðar. Það er ótti minn. Þess vegna vil ég samninga.