138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað þurfum við að horfa til framtíðar. Það þarf að gera ýmislegt upp í samfélaginu, en það er nú einfaldlega þannig að við getum ekki bara byggt á rannsóknum eða einhverju slíku, við verðum að læra. Skýrslan sem níu manna nefndin skilaði af sér er mjög gott plagg um hvernig við eigum að horfa til framtíðar, byggja upp og bæta samfélag okkar. Að sjálfsögðu eigum við líka að standa á rétti okkar sem þjóð gagnvart erlendum ríkjum og aðilum sem vilja að mörgu leyti reyna að troða okkur um tær. Allir vita skoðun mína á þessu Evrópusambandsbrölti sem núna blasir við og við eigum að sjálfsögðu að hverfa út úr sem allra, allra fyrst. Af hverju stöndum við ekki á rétti okkar gagnvart Bretum varðandi hryðjuverkalögin? Af hverju í ósköpunum látum við þetta yfir okkur ganga? Af hverju kærum við ekki þessa skrattakolla, afsakið orðbragðið, frú forseti, til æðra dómsvalds fyrir að beita okkur þessum lögum?

Frú forseti. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að það besta fyrir þjóðina að mínu viti er að mynda hér sterka ríkisstjórn allra flokka í ákveðinn tíma um afmörkuð málefni sem mestu skipta og boða síðan til kosninga þar sem þingmenn fá endurnýjað umboð til að starfa á löggjafarsamkomunni. Ég er ekki að segja hvenær það eigi að vera eða hvernig eigi að gera það. Ég held hins vegar að bæði við og samfélagið til framtíðar hafi mjög gott af því. Ég held að styrkja þurfi sitjandi stjórn sem stýrir landinu og það væri best gert með þjóðstjórn allra flokka sem mundi starfa í ákveðinn tíma, eitt ár eða eitthvað slíkt, síðan yrði boðað til kosninga þar sem þingmenn fengju endurnýjað umboð til að vinna fyrir hönd þjóðarinnar.