139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

mótmæli á Austurvelli og umræða um skuldavanda heimilanna.

[14:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Aldrei fyrr hef ég orðið vitni að slíkum mótmælum og þeim sem við sáum á Austurvelli í gær. Þúsundir manna, allur þorri mótmælenda, venjulegir og friðsamir Íslendingar sem eru að missa móðinn og gefast upp, missa heimili sín, missa atvinnu sína, missa lífsviðurværi sitt, missa vonina. Við þessu verður að bregðast snöggt. Við verðum að taka á dagskrá á Alþingi alvarlegan skuldavanda heimilanna nú þegar þúsundir manna eru að fara í þröng. Ekkert verkefni er brýnna en þetta. Tími til aðgerða er runninn upp, vandamálið er stórt, vandamálið er brýnt. Ég kalla eftir því að Alþingi setji nú þegar á dagskrá þetta mikilvæga mál til úrlausnar.