139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

sértæk skuldaaðlögun.

[14:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér ræddu þingmenn og hæstv. ráðherra um almenna skuldaniðurfellingu eða skuldaaðlögun. Ég vildi spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um sértæku skuldaaðlögunina í ljósi skýrslu sem nú hefur verið greint frá að komin er frá sérstakri eftirlitsnefnd um það efni. Það er ýmislegt forvitnilegt og athyglisvert í niðurstöðum hennar. Fyrst ber að nefna það sem komið var inn á áðan um hversu fáir einstaklingar hafa nýtt sér þau úrræði sem í boði eru að þessu leyti. Kunna að vera fyrir því ýmsar skýringar sem að sumu leyti er greint frá í skýrslunni. Hins vegar vekur líka athygli það sem snýr að fyrirtækjunum þar sem augljóslega er um að ræða mjög miklar afskriftir til tiltölulega fárra fyrirtækja. Af því tilefni vildi ég spyrja ráðherra hvort hann telji það fyrirkomulag sem sett var upp varðandi fyrrnefnda eftirlitsnefnd og skýrslugjöf hennar nægilegt eða fullnægjandi til að draga úr þeirri miklu tortryggni sem er í samfélaginu, bæði í viðskiptalífinu og líka úti í þjóðfélaginu, varðandi meðhöndlun bankanna á skuldamálum einstakra fyrirtækja, vegna þess að bæði hafa sjónarmið heyrst frá almenningi og eins frá samkeppnisaðilum þeirra fyrirtækja sem farið hafa í gegnum ferli af þessu tagi að jafnræðis sé ekki gætt og gagnsæi skorti að þessu leyti. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvert viðhorf hans er, hvort hugsanlega þurfi að breyta fyrirkomulaginu að einhverju leyti og hvort umrædd skýrsla gefi tilefni til þess.