139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

sértæk skuldaaðlögun.

[14:17]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Stærsta hagsmunamál okkar allra, stærsta hagsmunamál samkeppnisaðila í atvinnulífinu er að þetta gerist hratt. Löggjafinn samþykkti í október í fyrra, það er ár síðan, að það ætti að fella niður skuldir umfram greiðslugetu og verðmæti fyrirtækja. Það hefur ekki verið gert og þar stendur hnífurinn í kúnni. Við verðum líka að tryggja samkeppnisaðstæður með því að gera þær kröfur til bankanna að þeir lúri ekki á fyrirtækjum, hangi ekki á þeim heldur taki þau inn, umbreyti þeim og komi þeim aftur út á markaðinn. Fyrirtæki sem starfa beint eða óbeint í skjóli banka og njóta beint eða óbeint fyrirgreiðslu þeirra eru hættuleg á samkeppnismarkaði. Þau geta gert hluti sem aðrir geta ekki sem vinna á markaðsforsendum.

Þess vegna eigum við öll alveg afskaplega mikið undir því að þetta gerist hratt. Ég tek vel í það sem hv. þingmaður nefnir hér, um hvort styrkja þurfi heimildir eftirlitsnefndarinnar. Ég á von á því að vera með á frumvarpi um gengislánin, ákvæði sem styrkja (Forseti hringir.) sérstaklega umgjörð skuldaaðlögunarinnar fyrir fyrirtækin og það er þá tækifæri til þess í því frumvarpi og í meðförum þingsins að styðja eftirlitsnefndina í störfum hennar.