139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

ummæli þingmanns.

[14:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil koma með ábendingu til virðulegs forseta um að það verði sérstaklega tekið upp í forsætisnefnd — og ég mun sjálf beita mér fyrir því þar sem ég sit í forsætisnefnd — að þingheimur láti af tali eins og við urðum vitni að áðan. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Ég tel að ekki sé hægt að bjóða þjóðinni upp á það að hér séu þingmenn að saka hvern annan um mannvonsku. Hér gerði einn hv. þingmaður það, sakaði annan, hæstv. ráðherra, um mannvonsku, það var ekki hægt að skilja það öðruvísi. Þó að mönnum sé mjög mikið niðri fyrir og okkur líði flestum ef ekki öllum mjög illa yfir því hvernig er ástatt í samfélaginu og okkur finnist ganga hægt verðum við að gæta að virðingu þingsins og tala hér af einhverju réttlæti og einhverri sanngirni.

Ég vil sérstaklega koma þessari ábendingu á framfæri til forseta og þingsins. Þetta verðum við að taka upp í forsætisnefnd (Forseti hringir.) og ræða, að svona gangi umræður ekki fyrir sig lengur í þessum sal. Fólk er að mótmæla úti og þá leyfum (Forseti hringir.) við okkur ekki að tala svona í þessum sal. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)