139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er ánægður með að heyra viðbrögð hans varðandi heilsustefnuna. Það plagg er með mælanleg markmið og afskaplega mikilvægt að koma þeirri stefnu í framkvæmd og ég mun styðja hæstv. ráðherra í því með ráðum og dáð. En við höfum tækifæri til að ræða það betur seinna.

Hæstv. ráðherra kom hér heiðarlega fram og sagði, og það kemur ekkert á óvart, að hann viti ekki af hverju þessu var hætt. Ég geri ekki athugasemd við það að þegar nýr aðili kemur í ráðuneytið hafi hann aðrar áherslur og vilji gera hlutina öðruvísi, en það sem ég geri athugasemd við er þegar menn gera ekki neitt, þegar menn fresta og skrökva, því það er það sem gerðist. Menn frestuðu og sögðu við fólkið að það þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Ég veit það, vegna þess að ég hef talað við fjölmarga aðila, bæði á heilbrigðisstofnunum, í bæjarfélögunum og annars staðar. Þetta var sagt fyrir kosningar. Og allan þennan tíma þegar var vitað að það þyrfti að fara út í þetta, var tíminn ekki nýttur til að undirbúa okkur undir hið óhjákvæmilega.

Það eru mjög sérstakar aðstæður á ýmsum stöðum. Þess vegna þurfum við að vanda vel til verka. Ég var í gær á mjög góðum fundi í Vestmannaeyjum. Það bæjarfélag hefur t.d. þá sérstöðu að það er á eyju. Það gilda ekki sömu lögmál þegar við erum að skoða heilbrigðisþjónustuna þar og annars staðar. Af hverju? Vegna þess að það er erfiðara að komast frá Eyjum en öðrum stöðum á landinu. Þar vorum við í ákveðinni vinnu, ég og núverandi bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, og búnir að leggja drög að því að skoða það sérstaklega þegar við fórum frá þessu máli. Þannig þarf að vinna þetta á öllum stöðum.

Hættan núna er að við erum hér með plagg, einhverja stefnu, sem á sér í raun engan talsmann og við höfum ekki notað það (Forseti hringir.) allan þennan tíma, í tæp tvö ár, til að undirbúa þá aðila sem eiga að framkvæma stefnuna. Það er gríðarlega alvarlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Við verðum að gera hvað við getum (Forseti hringir.) til að bjarga hlutum fyrir horn.