139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:28]
Horfa

Baldvin Jónsson (Hr):

Frú forseti. Það er mér mjög til efs að til sé eitthvert þekkt tilvik í heiminum þar sem ríki hefur tekist að skattleggja sig út úr kreppu a.m.k. án mjög ósjálfbærrar nýtingar auðlinda landsins. Reynslan hefur þegar sýnt okkur á Íslandi að lækkun skatta á lögaðila skilaði ríkissjóði mjög auknum tekjum og þó að það hafi vissulega verið gert á óheppilegum tíma í miðri þenslu hérna er þetta engu að síður hugmyndafræði sem þegar hefur sýnt sig að skilaði sér í auknum tekjum.

Með núverandi efnahagsáætlun og skattstefnu ríkisins í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er verið að þurrka út millistéttina á Íslandi. Það er sú stétt sem skilar samfélaginu mestum tekjum hlutfallslega. Við munum ekki geta skattlagt þetta fólk frá Noregi eða öðrum nágrannalöndum okkar. Það er hlutverk okkar að búa þeim vettvang til að þrífast vel á Íslandi.

Ég tek heils hugar undir ýmsar hugmyndir hv. þm. Magnúsar Orra Schrams sem hann nefndi hér áðan og þakka gott hljóð.