139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

stjórnarskipunarlög.

7. mál
[17:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil segja í upphafi að það er mér ánægja að vera meðflutningsmaður að því máli sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flytur nú í sjöunda sinn. Ég ætla ekki að endurtaka ræðuna sem ég flutti um sama mál á síðasta þingi en ég vil þó minnast þess að það þurfti mann á hjóli og Mannréttindadómstólinn í Strassborg til að hér yrði fullkominn aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds og enn er aðskilnaður framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins óskýr þrátt fyrir að hér eigi að vera í gildi þrískipting ríkisvaldsins. Þingmenn gegna ráðherraembætti og þess vegna hljóta þessir valdþættir, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið að þvælast stundum hvor fyrir öðrum.

Það er hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar og hlutverk ríkisstjórnarinnar að framkvæma það sem henni er falið innan þess lagaramma sem Alþingi hefur sett. Hér er því oft alveg öfugt farið, ríkisstjórnin ákveður dagskrána og við þingmenn erum á harðahlaupum á eftir þeim.

Sú skoðun mín um nauðsyn þess að skerpa skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds hefur styrkst á því rúma ári sem ég hef setið í þingflokki þar sem fimmtungur þingmannanna eru ráðherrar. Vald ráðherranna er mikið í þingflokknum og ég get rétt ímyndað mér áhrif framkvæmdarvaldsins þar sem hlutfall ráðherranna er hærra í þingflokki. Það er ekki vegna þess að ráðherrarnir séu bullur sem vaða yfir okkur hin óbreyttu, eins og við þingmenn sem ekki gegnum háum embættum erum kölluð. Það er ekki nema eðlilegt að ráðherrar leggi mikla áherslu á að ná fram sem mestu í þeim málaflokki sem þeir eru ábyrgir fyrir en það er kannski einmitt þess vegna sem er nauðsynlegt að fjarlægðin milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins verði meiri en hún er. Löggjafarvaldið á ekki að sitja undir stöðugum þrýstingi frá ráðherrum sem liggur mikið á að bæta við afrekaskrá sína.

Því er gjarnan haldið fram að völd stjórnarflokka — og nú kem ég inn á það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir minntist á — muni aukast ef ráðherrar láta af þingstörfum vegna þess að stjórnarliðið svokallaða verði fjölmennara. Ég deili ekki þeirri skoðun, virðulegi forseti. Ég tel að völd á Alþingi ráðist af fjölda atkvæða og atkvæðavægið á þinginu mun ekki breytast þótt þessi breyting verði gerð.

Það verður heldur ekki svo að stjórnarliðið svokallaða muni hafa mun meiri mannafla í umræðum því að ef ráðherrar hætta þingmennsku munu þeir auðvitað einungis taka þátt í þeim umræðum á Alþingi sem snertir þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Ég tel þetta sem sagt hið besta og brýnasta mál og hvet okkur til að samþykkja þetta frumvarp því að það er, eins og komið hefur fram, nauðsynlegt að setja þetta inn í stjórnarskrána. Þó að hægt sé með einhverjum hætti að koma því á að það sé val ráðherra tel ég það vera grundvallaratriði að ákvæðið komi inn í stjórnarskrána. Ég hvet okkur til að samþykkja frumvarpið og senda það áfram til stjórnlagaþingsins með ósk frá Alþingi Íslendinga um að þetta ákvæði fari inn í tillögur þess að nýrri stjórnarskrá.